Innlent

Harmleikur í Grundafirði: Eldsupptök óljós

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Enn er óljóst hvað olli bruna á Grundargötu í Grundarfirði sem varð rúmlega fertugum manni að bana í nótt. Nágranni sem hringdi á slökkviliðið þakkar því snögg viðbrögð og víða í bænum var flaggað í hálfa stöng í dag.

Það var rétt fyrir klukkan þrjú í nótt sem slökkviliðinu í Grundarfirði barst tilkynning um eld í húsinu.

Örn Smári Þórhallsson, sem býr í húsinu á móti varð var við eldinn þegar hann var að koma heim úr vinnunni.

„Ég var rétt búinn að stöðva bílinn og sá þá að það var skrýtið ský á lofti. Ég skrúfaði síðan niður gluggann á bílnum og sá að það var kviknað í húsinu á móti. Ég hringdi þar af leiðandi strax í 112 . Ég stökk út úr bílnum og að húsinu og barði allt utan. Mikill svartur var reykur inni," segir Örn Smári.

Þar til fyrir skömmu síðan var einstæð móðir búsett á efstu hæð hússins og taldi Örn í fyrstu að maðurinn, sem var eigandi hússins, hefðist við á miðhæðinni.

„Svo fór ég niðurfyrir húsið og þá sá ég að eldurinn var á neðri hæðinni. Það var mjög mikill hiti og gríðarleg læti í eldinum. 112 báðu mig um að fara alls ekki inn," segir Örn Smári. Hann segir að slökkviliðið hafi komið á örskotsstundu. „Þeir eiga þakkir skilið fyrir góð viðbrögð," bætir Örn Smári við.

Bæjarbúar eru augljóslega slegnir yfir atburðinum og víða mátti sjá flaggað í hálfa stöng í Grundarfirði í dag.

Valgeir Magnússon slökkviliðsstjóri í Grundarfirði segir að á leiðinni á vettvang hafi þeir fengið að vita að maður væri mögulega í húsinu. Og því fóru reykkafarar strax inn.

„Við sendum semsagt þrisvar sinnum eitt par inn," útskýrir Valgeir um björgunaraðgerðir. Og eftir nokkra leit fannst íbúinn, maður á fertugsaldi á neðstu hæðinni, þar sem eldurinn virðist hafa komið upp. Lífgunartilraunir slökkviliðsmanna báru ekki árangur.

Valgeir segir að í raun hafi eldurinn ekki verið mikill og að hann hafi einangrast við eitt herbergi í húsinu, sem er þó augljóslega stórskemmt. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var send í Grundarfjörð í morgun en ekki hafa fengist upplýsingar um hvernig rannsókninni miðar og eins eru eldsupptök enn ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×