Innlent

Metfjöldi stundar nám í heimilislækningum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Forstjóri Landspítalans fagnar samningnum.
Forstjóri Landspítalans fagnar samningnum.
Metfjöldi stundar nú sérnám í heimilislækningum á Íslandi. Í síðustu viku var undirritaður nýr samningur milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala um starfsnám fyrir sérnámslækna í heimilislækningum. Föstum stöðum sérnámslækna hefur verið fjölgað og nú stunda 36 læknar sérnám í heimilislækningum á Íslandi og 7 til viðbótar bíða eftir stöðum. Fyrst var boðið upp á slíkt sérnám árið 1995. Sérnámsstöðum hefur að hluta verið fjölgað með því að lausum stöðum sérfræðinga innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur verið breytt í sérnámsstöður í heimilislækningum.

„Samningurinn við Landsspítala háskólasjúkrahús er afar mikilvægur því hann tryggir að fleiri sérnámslæknar en áður komast nú til starfa á deildum spítalans en það er forsenda þess að hægt sé að fjölga læknum í sérnáminu hér hjá okkur. Fjölgun sérnámslæknanna hefur einnig mikið gildi fyrir mönnun innan heilsugæslunnar á komandi árum," segir Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í tilkynningu vegna nýja samningsins.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítala fagnar samningnum einnig. „Þessi samningur styrkir samstarf og samvinnu milli Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og mun til lengri tíma litið styrkja þjónustu við sjúklinga okkar," segir Björn.

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 og hér á Vísi í apríl síðastliðnum að aldrei áður hafa eins margir læknar sótt um í sérnnámi í heimilislækningum hér á landi og síðastliðið vor. Tvöfalt fleiri umsóknir en áður bárust um stöður sem þá voru auglýstar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×