Innlent

Ákærður fyrir að rífa íslenskan fjárhund upp á eyrunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Reynisfjara.
Reynisfjara. Mynd/ HAG.
Karlmaður var í dag sýknaður af ákæru um brot á lögum um dýravernd. Hann var ákærður fyrir að hafa á föstudegi árið 2010 tekið íslenskan fjárhund upp á eyrunum og haldið á honum þannig nokkurn spöl á meðan að hundurinn ýlfraði og vældi af kvölum og reyndi ákaft að losa sig.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi en kannast við að hafa tekið hundinn upp á hnakkadrambinu, gengið með hann þannig tvö til þrjú skref, sett hann síðan undir höndina og borið hann þannig í átt að bifreið sinni sem var í bílastæði við Reynisfjöru, þar sem hann var staddur.

Samkvæmt framburði vitna sem komu fyrir dóminn mun þýskum ferðamönnum sem þarna voru staddir hafi brugðið við þessar aðfarir, en bæði þessi vitni bera að ákærði hafi tekið hundinn upp á eyrunum og borið hann þannig nokkurn spöl, allt að 40-50 metra að sögn annars vitnisins. Bæði þessi vitna bera að þau hafi verið um 10-20 metra frá ákærða er þau sáu hann lyfta hundinum en ekki kom fram hjá vitnunum að dýrið hefði reynt að losa sig.

Þorvaldur Hlíðdal dýralæknir bar vitni fyrir dómi og kvað ákaflega erfitt og ólíklegt að hægt væri að taka hund upp á eyrunum og taldi hann hundinn myndu reyna að vinda sig út úr þeirri stöðu. Í dómnum segir að hafa verði í huga að vitnin voru 10-20 metrum frá ákærða þegar hann tók hundinn upp og ekki hafi verið sýnt fram á að hundurinn hafi reynt að losa sig úr takinu. Því sé ekki hægt að sakfella manninn gegn neitun hans.

Það var Héraðsdómur Suðurlands sem kvað dóminn upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×