Innlent

Steingrímur segir að afgreiðslu fjárlaga sé stefnt í hættu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Steingrímur J. Sigfússon er ósáttur við framgöngu stjórnarandstöðunnar.
Steingrímur J. Sigfússon er ósáttur við framgöngu stjórnarandstöðunnar.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, segir að málþóf sjálfstæðis- og framsóknarmanna í umræðu um fjárlagafrumvarpið stofni afgreiðslu þessi í hættu og sé án fordæma í þingsögunni. Setja þurfi íslenska ríkinu fjárlög svo hægt verði að borga út laun í janúar.

Önnur umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar hefur nú staðið yfir fjóra daga. Hlé var gert á umræðunni klukkan hálf þrjú í nótt en þingfundi verður framhaldið í dag.

Stjórnarliðar hafa sakað sjálfstæðis- og framsóknarmenn um að halda uppi málþófi. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, segir þetta vera án fordæma í þingsögunni.

„Það er augljóst hverjum manni að við erum komin út í nýja algerlega nýja hluti þar sem fjárlagafrumvarpið er tekið í gíslingu og þar stendur yfir málþóf, dag eftir dag eftir dag. það hefur aldrei áður gerst svo ég viti til og man ég nokkur ár afturábak í þingsögunni eins og kunnugt er," segir Steingrímur.

Hér sé verið að ræða um fjárlagafrumvarp sem ætti að vera okkur öllum fagnaðarefni og við ættum að ræða með bros á vör. „Þar sem hallinn er nánast horfinn, kominn niður í 0,1 - 0,2 prósent af vergri landsframleiðslu, enda sést það meðal annars á því að hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsóknarflokkur leggur fram eina einustu breytingartillögu en samt röfla þeir um þetta sólarhringum saman. Þetta er ekki boðlegt og þetta hefur aldrei áður verið gert," segir Steingrímur.

Steingrímur segir að staðan sé alvarleg.

„Það vita það allir að það þarf að setja íslenska ríkinu fjárlög fyrir áramót þannig að hægt verði að borga hér út laun 1. janúar og svo framvegis, það hefur aldrei áður á Íslandi verið svo óábyrg stjórnarandstaða að hún stofni afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins í hættu eða setji það í uppnám. Það mun þessi auðvitað ekki gera. Hún mun gefast upp og játa sig sigraða," segir Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×