Innlent

Mikil viðurkenning ef Reykjavík verður fyrir valinu

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík segir að það yrði mikil viðurkenning fyrir Reykjavík ef Out Games leikarnir, sem stundum hafa verið kallaðir Ólympíuleikar samkynhneigðra, færu fram í borginni árið 2017. En í gær var ákveðið að valið stæði á milli Reykjavíkur og Miami Beach í Bandaríkjunum. Búast mætti við átta til tíu þúsund þáttakendum og öðrum gestum á leikana.

„Mér líst alveg gríðarlega vel á það og vona svo sannarlega að við hneppum þessa tilnefningu sem við sækjumst eftir," sagði Jón Gnarr í samtali við Bylgjuna í dag.

Næstu leikar fara fram í Antwerpen í Belgíu næsta sumar og þá verður tilkynnt hvort leikarnir árið 2017 fari fram í Reykjavík eða miami Beach. Borgarstjóri segir að ef Reykjavík verði fyrir valinu yrði það mikil viðurkenning fyrir mannréttindabaráttu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks á Íslandi og fyrir borgina.

„Reykjavík hefur, og Ísland hefur, staðið svo framarlega í mannréttindamálum almennt," segir hann.

Borgarstjóri segir að borgin ætti að ráða við að taka á móti þeim mikla fjölda sem alla jafna sækir leikana, enda ef Reykjavík yrði fyrir valinu, hefði hún og aðrir fjögur ár til að undirbúa leikana.

„Og ég held að þetta veðri bara tilhlökkunarefni sem verði bara leyst með skipulagningu og undirbúningi," segir hann.

Jón Gnarr hefur vakið töluverða athygli fyrir baráttu sína að mannréttindamálum upp á síðkastið.

Stofnuð hefur verið sérstök netsíða til að vekja athygli á honum og Vísir hefur heimildir fyrir því að hróður hennar hafi borist allt til Kosovo.

Þá vakti hann athygli þegar hann steig fram í gervi jólasveinsins Geðgóðs í Mjóddinni í gær, en með því var hann að vekja athygli á málstað Geðhjálpar sem er nú í gangi með jólaleik sinn, Geðveik jól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×