Innlent

Um 60% fleiri ferðamenn í nóvember

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ferðamönnum fjölgaði verulega í nóvember.
Ferðamönnum fjölgaði verulega í nóvember. Mynd/ GVA.
Alls fóru 36.950 erlendir ferðamenn frá landinu í nóvember síðastliðnum eða um 14 þúsund fleiri en í sama mánuði í fyrra. Um er að ræða 60,9% aukningu milli ára. Þetta sýnir talning Ferðamálastofu.

Þrefalt fleiri ferðamenn á ellefu ára tímabili Þegar litið er til fjölda ferðamanna í nóvembermánuði á ellefu ára tímabili (2002-2012) má sjá 13,2% aukningu milli ára að jafnaði frá árinu 2002. Ferðamönnum hefur fjölgað úr 12.400 í tæplega 37 þúsund, sem er nærri þreföldun.

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í nóvember frá Bretlandi, eða 27,7%, og 17,4% voru frá Bandaríkjunum. Ferðamenn frá Noregi (8,3%), Svíþjóð (5,8%), Þýskalandi (5,2%), Danmörku (4,9%) og Frakklandi (4,1%) fylgdu þar á eftir. Samtals voru þessar sjö þjóðir þrír fjórðu ferðamanna í nóvember.

Af einstaka þjóðum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum, Norðmönnum og Þjóðverjum mest milli ára í nóvember. Þannig komu um 5.100 fleiri Bretar í ár en í fyrra, 2.300 fleiri Bandaríkjamenn, um 960 fleiri Norðmenn og 800 fleiri Þjóðverjar.

Það sem af er ári hefur 618.901 erlendur ferðamaður farið frá landinu eða 99 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra en um er að ræða 19,1% aukningu milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×