Innlent

Vigdís Finnbogadóttir las fyrir börnin

Börn skilja ekki fjölda orða sem notuð voru í daglegu tali á seinnihluta síðustu aldar og foreldrar þeirra eru aldir upp við. Orð á borð við að skæla og mæla og ýmis máltæki, eins og að sitja við sinn keip, eru hægt og rólega að hverfa úr daglegu máli. Þetta segir Vigdís Finnbogadóttir, verndari Barnaheilla - Save the Children á Íslandi, sem las fyrir börn á 140 ára afmæli Eymundsson verslananna á dögunum. Hún ræddi meðal annars við fullorðna fólkið um mikilvægi þess að kynna ungu kynslóðina fyrir þeim orðum sem eru í barnasögum á borð við Búkollu og Hans Klaufa.

Staða íslensku barnabókarinnar er í brennidepli á 140 ára afmælinu. Á þessu ári hafa verið gefnar út um 300 barnabækur en einungis lítill hluti þeirra er eftir íslenska höfunda, megnið eru þýddar barnabækur.

Eymundsson verslanirnar styrktu Barnaheill - save the Children á Íslandi á afmælisdeginum með því að láta allan ágóða af sölu barnabóka renna til samtakanna. Þema nóvembermánaðar út frá barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í nóvember var 28. greinin sem fjallar um rétt allra barna til menntunar. Lestur er afar mikilvægur í því tilliti.

Bryndís Loftsdóttir, bóksali hjá Eymundsson, telur að koma þurfi til stuðningur við íslenskra höfunda og myndskreyta til að fá réttara hlutfall af íslenskri menningu í barnabókmenntir, sérstaklega þegar kemur að yngstu börnunum.

„Okkur vantar alveg íslenska sveitabæi, íslenska lögreglubíla, íslenskan mat eins og slátur og kjötsúpu inn í íslenskar barnabækur, en þegar kemur að unglingabókum er hlutfallið orðið réttara."

Vigdís fagnar tækniframförum og þeirri tækni sem býður upp á bækur á rafrænu formi:

„Við þurfum að fylgjast með tímanum, hverja stund að fylgjast með því sem er að gerast annars staðar í heiminum. Þetta náttúrulega auðveldar mikið allt aðgengi að lesefni og öllu efni sem framleitt er, en ekki vil ég samt missa bókina úr hendinni, því það kemur ekkert í staðinn fyrir það að halda á fallegri bók og fara hægt frá síðu til síðu án þess að þurfa að ýta á takka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×