Innlent

Leigufélag ÍLS mun ekki undirbjóða almennan markað

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Velferðarráðherra segir að nýtt leigufélag Íbúðalánasjóðs muni ekki undirbjóða almennan leigumarkað. Markmið félagsins sé að ná stöðugleika á leigumarkaði en í framtíðinni gætu lífeyrissjóðir og aðrir aðilar komið að rekstri þess.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Íbúðalánasjóður stefnu að því að stofna sjálfstætt leigufélag í eigu ríkisins á næstu dögum. Í það félag verða færðar allt að sjö hundruð íbúðir sjóðsins og leigðar út til lengri tíma, flestar eignirnar eru nú þegar í leigu en einhverjar munu bætast við.

„Og það verða eignir sem að til langframa geta verið í þessu félagi því forsenda þess að setja af stað leigufélag er að viðgetum tryggt öryggi á leigumarkaðnum. Það er eitt af þeim markmiðum sem sett var í húnæðisstefnunni að jafna stöðu milli leigjenda og húseigenda og eitt af því er að það sé framboð á leiguhúsnæði og það sé frá aðilum sem eru ekki að hlaupa út af markaðnum ef það fást góð sölutilboð," segir Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Hann segir að íbúðirnar verði þá leigðar út ótímabundið og leigjendur geti fært sig til innan félagsins til dæmis eftir þörfum um stærð íbúða. Hann segir að með þessi megi koma jafnvægi á leigumarkaðinn.

„Við þekkjum það hérna á höfuðborgarsvæðinu er leiguverð gríðarlega misjafnt og yfirverð á mörgum eignum. Hugmyndin með því að vera með stórt opinbert leigufélag umfram það sem er í félagsbústöðum og öryrkjum og námsmönnum þá sé þarna stórt félag sem getur haft áhrif á leigumarkaðinn, þó þannig að það sé ekki undirboð á markaðinn," segir Guðbjartur.

En er heppilegt að það sé ríkið sem er að fara út í að stofna svona leigufélag?

„Ég held að það sé mjög mikilvlægt að ríkið og sveitafélög komi inn í þetta í byrjun og tryggi að það sé hægt að skapa traust á leigufélögunum að fenginni reynslu undanfarinna ára en til lengri tíma gæti maður séð að aðrir aðilar kæmu að þessu, svo lífeyrissjóðir," segir Guðbjartur.




Tengdar fréttir

Leigufélag ÍLS á að tryggja framboð og halda leigu niðri

Stefnt er að því að stofna leigufélag utan um eignir Íbúðalánasjóðs á næstu dögum. Fyrsta kastið verða 600 til 700 eignir í félaginu sem verður sjálfstætt. Stofnað til að bæta leigumarkaðinn, segir velferðarráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×