Viðskipti innlent

Leigufélag ÍLS á að tryggja framboð og halda leigu niðri

Fyrsta kastið fara 600 til 700 íbúðir inn í félagið. Stjórn þess ákveður síðan hvort fleiri eignum verður bætt við, þyki þær henta.fréttablaðið/hag
Fyrsta kastið fara 600 til 700 íbúðir inn í félagið. Stjórn þess ákveður síðan hvort fleiri eignum verður bætt við, þyki þær henta.fréttablaðið/hag
Leigufélag í eigu Íbúðalánasjóðs (ÍLS) verður stofnað á næstu dögum. Félagið, sem verður sjálfstætt og aðskilið sjóðnum, mun halda utan um leigu á íbúðum sjóðsins, en félagið á ekki að skila hagnaði. ÍLS leggur félaginu til á bilinu 600 til 700 íbúðir til að byrja með, sem langflestar eru í útleigu, að sögn Sigurðar Erlingssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins.

„Í meginatriðum liggur fyrir hvaða eignir fara inn í það. Svo er næsta skref að stofna félagið formlega og ráða stjórn og framkvæmdastjóra. Það er komið á það stig."

Sigurður segir að unnið sé út frá því að félagið verði stofnað fyrir áramót. Hvort það náist verði að koma í ljós, en nýlegar vendingar í málefnum sjóðsins gætu haft áhrif á málið. Þá kunni starfshópur, sem ráðherra skipaði til að skoða málefni sjóðsins, að vilja kynna sér málið.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að með félaginu eigi að búa til úrræði á leigumarkaði. Það sé hluti af framtíðarsýn varðandi eflingu húsaleigumarkaðar.

„Hluti af þeirri hugsun eru húsaleigubætur og þegar þær komast á, og verða efldar, þá munum við tryggja framboð og eðlilega samkeppni í sambandi við leiguverð. Hugmyndin er að leigan verði miðuð við það að félagið standi undir sér, en ekkert meira."

Eignir sem fara inn í félagið verða að henta vel til útleigu og mega ekki vera of stórar eða á svæðum þar sem skortir eftirspurn eftir leiguíbúðum. Stjórnar félagsins bíður að ákveða hvort fleiri eignir verði teknar inn í félagið. Þær verða hins vegar að henta vel til útleigu.

ÍLS leggur félaginu til eignir og leigutekjur fara til þess. Eignirnar sem fara strax inn í félagið eru víða um land, að sögn Sigurðar. Guðbjartur segir að gæta verði að því að ekki myndist tap á félaginu.

„Þetta verður að vera félag sem er stofnað inn í framtíðina. Þetta er ekki til að bjarga Íbúðalánasjóði. Þetta er til að bjarga leigumarkaðinum."

- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×