Íslenski boltinn

Willum Þór opinn fyrir kvennaboltanum | Ræddi við Valsmenn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Willum hefur gert bæði Val og KR að Íslandsmeisturum í karlaflokki.
Willum hefur gert bæði Val og KR að Íslandsmeisturum í karlaflokki. Mynd/Stefán
Knattspyrnuþjálfarinn Willum Þór Þórsson hefur fullan hug á að halda áfram þjálfun. Willum, sem síðast stýrði 1. deildar liði Leiknis í sumar, segir eftirspurnina dræma.

„Ég var að fara yfir þetta. Ég er búinn að bera ábyrgð á liði í 26 ár samfleytt ef frá eru talin tvö ár þar sem ég var í meistaranámi í hagfræði í Kaupmannahöfn 1991-1993," segir Willum sem hefur marga fjöruna sopið.

Félögin í efstu deild karla hafa öll gengið frá þjálfaramálum sínum en þau hefja undantekningalítið æfingar upp úr mánaðarmótunum.

„Ég var aðeins í viðræðum við Valsmenn en það náði ekki lengra," segir Willum en Valsmenn réðu Magnús Gylfason í starfið. Áhugi Willums á nýju verkefni er fyrir hendi enda ástríðan svo sannarlega fyrir hendi.

„Já, en eftirspurnin er dræm einhverra hluta vegna," segir Willum sem gæti vel hugsað sér að þjálfa kvennalið eða í neðri deildum karlaboltans.

„Ég þjálfaði kvennahandbolta í þrjú ár. Bæði meistaraflokka Þróttar og Ármanns á 9. áratugnum. Það var mjög gaman," segir Willum sem útilokar ekkert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×