Innlent

Hrefnu fækkaði töluvert við Ísland

BBI skrifar
Niðurstöður reglulegra hvalatalninga sýna að hrefnu fækkaði umtalsvert á grunnsævi við Ísland á árunum 2001 til 2007. Ekki liggja fyrir nægileg gögn til að skýra þá breytingu á útbreiðslu hrefnu sem virðist hafa átt sér stað.

Það var þingmaður Framsóknarflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, sem spurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hvernig stofnar helstu hvalategunda við landið hefðu þróast síðustu 10 ár. Svörin miðuðu við reglulegar talningar sem gerðar voru. Svörin miðuðu því einkum við breytingar milli talninga árið 2001 og 2007, en næstu talningar er að vænta árið 2015.

Stærð hrefnustofnsins við landið breyttist ekki með marktækum hætti á árunum 1987-2001. Hins vegar minnkaði stofninn við landgrunn Íslands umtalsvert eftir það. Árið 2001 var stofninn metinn 44 þúsund dýr. Árið 2007 var hann um 21 þúsund dýr og í aukatalningum sumarið 2009 var fjöldinn metinn um 10 þúsund dýr.

Hins vegar sýndu talningar í Faxaflóa sumarið 2008 mun hærri þéttleika, sambærilegan við það sem var árið 2001. Það bendir til þess að um sé að ræða breytingar á útbreiðslu frekar en minnkandi stofnstærð. Ekki liggja fyrir nægileg gögn til að skýra nánar þessa breytingu.

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur, tekur fram að tölurnar séu alls ekki hárnákvæmar en engu að síður um marktæka fækkun að ræða. „Það er samt kannski ekki hægt að tala um fækkun í hrefnustofninum. Hrefnustofninn sem við veiðum úr nær frá Austur Grænlandi, um Ísland til Jan Mayen. Við teljum líklegast að þessi fækkun við strendur Íslands sé afleiðing af fæðuskorti og hrefnan hafi fært sig kannski upp að ströndum Grænlands," segir Gísli.

Hvalveiðar í vísindaskyni við strendur Íslands hófust aftur árið 2003. Á tímabilinu 2003 til 2007 voru samtals veiddar um 200 hrefnur. Hvalveiðar í atvinnuskyni hófust árið 2006. Gísli telur útilokað að hvalveiðar hafi verið orsökin fyrir fækkun hrefnu við landið.

Í talningunum komu fram marktækar breytingar á stofnum langreyðar, hnúfubaks og steypireyðar á árunum 2001 til 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×