Innlent

Ætla að leigja þyrlu þó hagkvæmara sé að kaupa

BBI skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar í viðgerð.
Þyrla Landhelgisgæslunnar í viðgerð. Mynd/Stefán Karlsson
Það er ekki hægt að kaupa nýja þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna, þó það yrði að öllum líkindum hagstæðara til langs tíma en að leigja hana. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti fyrir ríkisstjórn í morgun.

Ástæðan er lög um fjárreiður ríkisins. Samkvæmt þeim yrði óhjákvæmilegt að gjaldfæra alla greiðsluna vegna kaupanna á fyrsta ári og hún kæmi því fram á fjárlögum næsta árs.

Í minnisblaðinu segir orðrétt:

„Vakin er enn á ný athygli á því að þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að mun hagkvæmara er til langs tíma að kaupa björgunarþyrlur í stað þess að leigja, þá girða lög um fjárreiður ríkisins fyrir að unnt sé að eignfæra slíka fjárfestingu og því óhjákvæmilegt að gjaldfæra allt kaupverðið á fyrsta ári. Þannig kæmu heildarútgjöldin fram á fjárlögum ársins 2013. Útboð á fjármögnun samhliða kaupum á þyrlunum eins og til stóð er því ekki fær leið og leiga eini kosturinn. Færa má fyrir því sterk rök að þetta fyrirkomulag sé skattgreiðendum óhagstætt og því mikilvægt að íhuga breytingar í þessu efni."

Þrjár þyrlur verði tiltækar

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var fjallað um fyrirhugaða leigu á björgunarþyrlum fyrir Landhelgisgæsluna. Ákveðið hefur verið að leigja þyrlur til langtíma til að tryggja að jafnan séu þrjár þyrlur í rekstri hjá Landhelgisgæslunni frá næstu áramótum.

Áætluð útgjöld vegna leigu og trygginga til sex ára eru 3,4 milljarðar króna og 5,3 milljarðar króna til átta ára. Útboðsfrestur verður til loka nóvember og er markmiðið að afla þyrlna í opinni samkeppni.

Útboðið tekur mið af því að þyrlufloti Landhelgisgæslunnar verði einsleitur, enda er það hagkvæmara hvað varðar þjálfun flugmanna og viðhald. Þar sem Landhelgisgæslan á nú eina Super Puma þyrlu er annað hvort óskað eftir leigu á tveimur slíkum eintökum til viðbótar eða þremur þyrlum annarrar tegundar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×