Innlent

Stjórnendur telja svarta vinnu vaxandi vandamál

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Langflestir þeirra stjórnenda sem þátt tóku í könnun Samtaka atvinnulífsins telja að svört vinna sé vaxandi vandamál hér á landi. Framkvæmdastjóri samtakanna kallar eftir skjótvirkari úrræðum til að bregðast við þegar upp kemst um svik.

Stjórnendur fimmhundruð og sextán fyrirtækja, sem saman telja um þrjátíu og fimm þúsund starfsmenn tóku þátt í könnuninni og þeir eru flestir á einu máli.

Áttatíu og tvö prósent þeirra segja svarta vinnu vera vaxandi vandamál hér á landi og aðeins átján prósent eru ekki þeirrar skoðunar. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir niðurstöðurnar áhyggjuefni og að þær sýni hve vandamálið sé víðtækt.

„Svört atvinna er eitthvað sem fyrirtækin sem eru með allt sitt á hreinu geta ekki þolað. Það verða allir að sitja við sama borð, menn geta ekki búið við heimatilbúnar reglur eða skattkerfi, það verða allir að fara eftir sömu leikreglum."

Undanfarin misseri hafa Samtök atvinnulífsins, ASÍ og Ríkisskattstjóri markvisst unnið í þessum málum og hefur sú vinna að sögn Vilhjálms varpað ljósi á vandamálið. Að hans sögn vantar þó úrræðin til að bregðast við þegar upp kemst um svarta vinnu en eins og staðan er í dag er lítið hægt að gera fyrr en á öðru ári eftir að upp kemst um málið.

Það sem við erum að tala um er það að þegar það blasir við að það er ekki verið að fylgja reglunum, að þá sé gefinn eh tiltekinn frestur til að koma hlutunum í lag. Ef það verði ekki uppfyllt, þá hafi það einhverjar afleiðingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×