Fótbolti

Finnar vilja ólmir fá Jenkinson

Bakvörðurinn Carl Jenkinson hjá Arsenal hefur stigið upp í vetur eftir að hafa litið út eins og 3. deildarleikmaður á síðustu leiktíð. Leikmaðurinn getur valið um hvort hann spili fyrir enska eða finnska landsliðið. Finnar leggja nú afar hart að leikmanninum að skuldbindast finnska liðinu.

Jenkinson lék með finnska U-19 og U-21 árs liðinu en lék aftur á móti með enska U-17 ára liðinu. Sjálfur er leikmaðurinn tvítugur.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, sagði á dögunum að enska landsliðið ætti að berjast fyrir þvi að tryggja sér leikmanninn enda ætti hann eftir að verða góður.

Englendingar eru í vandræðum með hægri bakvarðarstöðuna fyrir komandi leiki í undankeppni HM. Glen Johnson er í banni og þeir Martin Kelly og Micah Richards eru báðir meiddir. Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, gæti því hóað í Jenkinson.

Finnar vita af þessu og hafa því sett sig í samband við leikmanninn vegna málsins og leggja þeir hart að honum að spila frekar fyrir finnska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×