Innlent

Segir Landsvirkjun nota gloppu í skipulagslögum

Karen Kjartansdóttir skrifar
Landsvirkjun hefur laumast til að hefja framkvæmdir við Mývatn án leyfis. Þetta fullyrðir formaður Landverndar sem vill að framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað. Forstjóri Landsvirkjunar segir málið misskilning.

Stjórn Landverndar telur að þessar framkvæmdir gerðar í óleyfi . Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður samtakana, sendi í dag stjórn Landsvirkjunar bréf þar sem farið er fram á að framkvæmdirnar verði stöðvaðar.

„Þarna er farið af stað á grundvelli leyfis sem sveitarfélagið hefur gefið út sem við teljum ekki fullnægjandi því þarna er farið af stað með óafturkræfar framkvæmdir. Þrátt fyrir að framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út, virkjanaleyfi ekki tilbúið, stjórn fyrirtækisins hefur ekki tekið ákvörðun um að reisa þessa virkjun og rammaáætlun hefur ekki verið samþykkt á alþingi. Þannig við teljum að Landsvirkjun hafi fram úr sér í þessu verki," segir Guðmundur.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að jarðvegstilfæringar séu mjög vel afturkræfar. Unnið hafi verið að framkvæmdunum í um áratug og öll leyfi fyrir þeim séu fyrir hendi. Landvernd byggi því kvartanir sínar á misskilningi.

Guðmundur Hörður segir hins vegar að Landsvirkjun sé að nota gloppu í skipulagslögum til að hefja framkvæmdir að virkjun sem hafi ekki fengið tilskilin leyfi. Erfitt sé að sjá hvernig raskið á svæðinu verði bætt ef umhverfisáhrif á svæðinu þykja of mikil til að veita virkjanaleyfi. Hann óttast áhrif mengaðs affallsvatns og brennisteinsmengunar á vatnið.

En umhverfismat á svæðinu liggur fyrir?

„Við teljum að áður en að farið er í hina endanlegu framkvæmd þurfi að kanna miklu betur umhverfisáhrif virkjunarinnar. Meðal annars með brennisteinsvetnismengun og möguleg áhrif affallsvatns á lífríki Mývatns sem hefur sérstöðu á heimsvísu. Þeir starfa þarna á grundvelli tíu ára gamals umhverfismats á þessum tíu árum sem liðin eru frá því að það var unnið hefur mjög mikil reynsla fengist af jarðvarmavirkjunum hér á landi. Meðal annars upp á Hellisheiði sem hefur sýnt að það koma upp vandamál sem orkufyrirtækin ráða ekki við og við megum ekki lenda í þeirri stöðu við Mývatn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×