Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - ÍBV 0-3

Einar Njálsson á Hlíðarenda skrifar
ÍBV vann öruggan þriggja marka sigur á Val í 20. umferð Pepsi deildarinnar í kvöld. Eyjamenn mættu með nýja þjálfara í leikinn en Magnús Gylfason gekk úr starfi sínu sem þjálfari daginn áður. Ian Jeffs leikmaður liðsins sér um að þjálfa liðið ásamt Dragan Kazic það sem eftir er af tímabilinu.

ÍBV var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fékk þau fáu færi sem litu dagsins ljós. Christian Olsen fékk sannkallað dauðafæri í upphafi leiks en tókst á klaufalegan hátt að setja knöttinn yfir þar sem hann stóð einn á markteig.

ÍBV sótti meira og voru Valsarar í raun aldrei hættulegir í sínum aðgerðum og ógnuðu lítið fram á við. Fyrsta mark leiksins var því fullkomlega verðsuldað en það skoraði fyrirliði ÍBV, Rasmus Christiansen, með glæsilegu skoti rétt fyrir utan teig sem endaði efst í hægra horninu, óverjandi fyrir Sindra í marki Vals.

Valsmenn komu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og voru beittari en í fyrri hálfleik. Það var síðan á 56. mínútu leiksins sem Christian Olsen bætti upp fyrir mistök sín fyrr í leiknum og skoraði eftir góða stungusendingu Andra Ólafssonar. Varnarleikur Valsmanna leit ekki vel út í aðdraganda marksins.

Markið virtist slökkva algjörlega á Valsmönnum og róaðist leikurinn mjög mikið. Það var síðan markaskorarinn Tryggvi Guðmundsson sem gulltryggði sigur Eyjamanna með dæmigerðu marki frá honum. Eftir að hafa komist inn í sendingu varnarmanns þá komst hann einn í gegn og kláraði færið af yfirvegun. Sanngjarn 0-3 sigur ÍBV niðurstaðan í leik sem var ekki mikið fyrir augað.

ÍBV situr eftir leikinn í öðru sæti deildarinnar og í mikilli baráttu um Evrópusæti. Valsmenn eru aftur á móti ekki öruggir með sæti sitt í deildinni þegar aðeins tveir leikir eru eftir.

Tryggvi: Hemmi verður vonandi góður þjálfari
Tryggvi Guðmundsson segist lítast vel á að fá æskufélaga sinn Hermann Hreiðarsson sem þjálfara ÍBV en gengið var frá ráðningu hans í gær.

„Þeir hafa verið að reyna að fá kallinn heim í nokkur ár til að spila en núna er hann orðinn of gamall," sagði Tryggvi.

„En hann er nú kominn sem þjálfari og mér líst ágætlega á það. Við vitum allir hvernig karakter Hemmi hefur að geyma og við vonum að hann verði góður þjálfari."

Hermann á langan feril að baki sem knattspyrnumaður en er nú að stíga sín fyrstu skref sem þjálfari. Það er þó ekki útilokað að hann muni spila sjálfur.

„Hann mun bæði æfa og berja strákana áfram," segir Tryggvi. „Ætli hann þurfi ekki að spila á endanum þar sem hann verður örugglega búinn að berja helming strákanna í liðinu. Mér þykir það líklegt."

Kristján: Ekkert við leik ÍBV kom á óvart
Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals, segir að það hefði skipt miklu máli að Eyjamenn hefðu verið fyrri til að skora í leiknum.

„Það var gríðarlega mikilvægt og Eyjamönnum tókst það rétt fyrir lok fyrri hálfleiks," sagði Kristján eftir leikinn í kvöld.

„Annars skiptu gæðin líka máli. Við unnum boltann framarlega á vellinum eins og við vildum gera en töpuðum honum strax aftur."

Valsmenn eru nú í níunda sæti deildarinnar með 25 stig þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu.

„Það getur vel verið að það hafi vantað einhverja gulrót en slíkt á ekki að þurfa til að vinna leiki. Við erum að reyna að koma okkur ofar í töflunni enda viljum við vera í efri hluta deildarinnar."

„Í kvöld spiluðum við ekki eins og lið sem á að vera þar. Það var ekkert sem okkur á óvart í leik ÍBV en þeir spiluðu nákvæmlega eins og við bjuggumst við."

Þórarinn Ingi: Áfall fyrir leikmenn
Þórarinn Ingi Valdimarsson átti fínan leik á miðju ÍBV í kvöld og segir að sigurinn á Valsmönnum hafi verið sanngjarn.

„Við mættum tilbúnir til leiks og sýndum í kvöld að við erum með hörkugott fótboltalið," sagði Þórarinn Ingi.

Á ýmsu hefur gengið í herbúðum ÍBV síðustu daga en Magnús Gylfason hætti sem þjálfari liðsins í gær og síðar um kvöldið var tilkynnt að Hermann Hreiðarsson myndi taka við því að tímabilinu loknu.

Þórarinn Ingi vildi ekki tjá sig um hvort að Magnús hefði misst traust leikmanna, eins og orðrómur hefur verið um.

„Ég ætla ekki að tjá mig um svoleiðis. Þessar fréttir voru sjokk fyrir okkur leikmenn og þetta er leiðinlegt mál. En ég ætla ekki að tjá mig um annað enda veit ég bara ekki hvort það hafi verið raunin."

„Hermann er Eyjamaður út í gegn og við vitum alveg að hverjum við erum að ganga með því að ráða hann. Hann er frábær karakter og mikill keppnismaður. Nú er hann kominn með sín þjálfararéttindi og ætlar að fara á fullu í þjálfun. Það eru spennandi tímar fram undan í Eyjum."

Það á svo eftir að koma í ljós hvort að Hermann muni taka fram skóna þegar tímabilið hefst á ný í vor.

„Ég veit ekki hvernig formi hann er í en það væri ekki verra þegar agabönn [...]," sagði Þórarinn og staldraði við. „Agabönn? Sagði ég agabönn? Ég meina þegar að leikbönn og meiðsli detta inn," sagði Þórarinn en agabönn hafa verið mikið í umræðunni í tengslum við lið ÍBV í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×