Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - KR 2-2

Stefán Hirst Friðriksson í Grindavík skrifar
KR bjargaði sér naumlega frá neyðarlegu tapi fyrir botnliði Grindavíkur í kvöld. Heimamenn komust 2-0 yfir í fyrri hálfleik en KR-ingar jöfnuðu metin með tveimur mörkum á síðasta stundarfjórðungnum.

Leikurinn var augljóslega þýðingarlítill fyrir bæði lið en stúkan sat nánast auð þegar flautað var til leiks.

KR-ingar byrjuðu leikinn ágætlega og fengu nokkur góð marktækifæri til þess að ná forystunni snemma í leiknum en tókst ekki.

Við tók góður kafli heimamanna um miðjan fyrri hálfleikinn en þeim tókst að skora tvö mörk á tæplega tíu mínútna kafla.

Þar var að verki Magnús Björgvinsson, framherji Grindavíkur í bæði skiptin. Hann fékk boltann inn fyrir vörn KR-inga og lagði honum snyrtilega í netið í báðum mörkunum. Keimlík mörk þar sem vörn gestanna var í ruglinu.

KR-ingar fengu enn fleiri tækifæri til þess að skora á næstu mínútum en inn vildi boltinn ekki og heimamenn því með góða tveggja marka forystu þegar flautað var til leikhlés.

Síðari hálfleikurinn var langtum hrein skelfing og voru það frekar heimamenn í Grindavík sem voru nær því að bæta við marki á fyrsta hálftíma hálfleiksins.

Áhugaleysi KR-inga var algjört í hálfleiknum en þeim tókst þó að minnka muninn á 76. mínútu eftir skallamark Emils Atlasonar. Í raun fyrsta almennilega sókn KR-inga í hálfleiknum og varla verðskuldað.

Það var svo á lokaandartökum leiksins sem KR-ingum tókst að jafna leikinn.

Þá ætlaði Ray Anthony Jónsson, leikmaður Grindavíkur að gefa til baka á Óskar í marki liðsins en Emil Atlason komst inn í sendinguna og renndi boltanum í autt markið. Skelfileg og sárgrátleg mistök fyrir heimamenn og jafntefli í leiknum staðreynd.





Rúnar: Erfitt að rífa sig upp við mótlætið

„Þetta var ekki neitt sérstaklega merkilegt. Fyrri hálfleikurinn var reyndar góður hjá okkur og fengum við fullt af dauðafærum á upphafsmínútum leiksins til þess að skora. Við töldum einhver sjö dauðafæri sem við fengum í fyrri hálfleiknum og er það ótrúlegt að við séum ekki að nýta þessi færi," sagði Rúnar.

„Ég er ósáttur við mörkin sem við fáum á okkur. Við erum að tapa boltanum á slæmum stöðum og nýta þeir skyndisóknir sínar vel í kjölfarið. Við lendum tveimur mörkum yfir og erum í lokin í rauninni heppnir að ná að jafna leikinn," bætti Rúnar við.

Ófarir KR-inga í seinni umferðinni halda áfram en liðið hefur einungis nælt sér í níu stig í henni og sagði Rúnar að sjálfstraustið í liðinu væri í lágmarki.

„Menn eru alls ekki hættir að nenna þessu. Við komum til baka í þessum leik og skorum tvö mörk. Í síðasta leik á móti Breiðablik fáum við fullt af færum áður en að þeir skora en þetta er ekki að detta með okkur.

Við erum að fá fullt af dauðafærum í leikjunum okkar og ef að við nýtum þau væri sagan allt önnur. Þegar sjálfstraustið í okkar liði er eins og það er í dag, eftir ófarir undanfarna umferða er erfitt að rífa sig upp við mótlætið," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR í leikslok.

Magnús: Saga Grindavíkur í sumar

„Þetta er hundfúlt að tapa niður þessum sigri í dag og líður mér eins og við höfum tapað þessum leik. Við spiluðum ágætlega í þessum leik, skorum tvö mörk og erum hreinlega aular að klúðra þessu niður. Þetta er svona nokkurnveginn saga Grindavíkur í sumar," sagði Magnús.

„Framherji er alltaf sáttur með það að skora mörk en það sem stendur eftir eru lokamínúturnar. Þeir sköpuðu sér ekkert mikið í seinni hálfleiknum og var þetta algjört einbeitingarleysi og aulaskapur að klúðra þessu niður undir lokin," sagði Magnús Björgvinsson, leikmaður Grindavíkur í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×