Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fram - Stjarnan 1-1

Kristinn Páll Teitsson á Laugardalsvelli skrifar
Leikmenn Fram geta nagað sig í handarbökin eftir 1-1 jafntefli þeirra við Stjörnuna í Laugardalnum í kvöld. Þeir voru manni fleiri í tæplega hálftíma og klúðruðu víti en náðu ekki að slíta sig frá Stjörnumönnum sem nældu sér í stig á lokamínútum leiksins.

Heimamenn sem eru í bullandi fallbaráttu fengu slæmar fréttir rétt fyrir fyrsta flaut, vegna sigurs Selfoss gegn Keflavík voru þeir komnir í fallsætið en gátu lyft sér aftur upp fyrir Selfyssinga með stigi. Stjörnumenn fengu betri fréttir af öðrum leikjum, KR fengu aðeins stig í Grindavík og gátu þeir því skotið sér upp í Evrópusæti.

Bæði liðin spiluðu varfærnislega og þreifuðu fyrir sér í fyrri hálfleik, án þess að taka miklar áhættur. Almarr Ormarsson og Kennie Chopart voru nálægt því að skora en náðu ekki að koma boltanum yfir línuna. Gunnari Erni Jónssyni tókst það hinsvegar, þá missti Ögmundur fyrirgjöf beint fyrir Gunnar sem fékk boltann í hendina og lagði hann í tómt netið. Þorvaldur var þó búinn að dæma og fær hann hrós fyrir að sjá þetta.

Það dróg til tíðinda á 63. mínútu þegar Sam Tillen, vinstri bakvörður Fram fékk boltann við miðjann völlinn. Hann átti frábæra rispu þar sem hann spændi sig í gegnum vörn Stjörnunnar og slapp einn í gegn. Jóhann Laxdal reyndi að stöðva hann er tæklaði hann rétt inn fyrir vítateiginn og dæmdi dómari leiksins, Þorvaldur Árnason víti og sendi Jóhann í sturtu. Tillen fór sjálfur á punktinn en setti boltann hátt yfir markið.

Heimamenn tóku þó völdin eftir rauða spjaldið og kom fyrsta mark leiksins tíu mínútum síðar. Þá átti Almarr góðan sprett upp sömu leið og Sam tíu mínútum áður, skapaði sér pláss og skaut á markið. Ingvar varði vel en frákastið barst til Kristins Inga sem var mættur og skoraði í autt netið, gríðarlega mikilvægt.

Bjarni Jóhannsson henti fram öllum sínum trukkum á síðustu mínútum og virkaði það í uppbótartíma, þá átti Tryggvi Bjarnason skot í slánna, boltinn barst til Garðars sem skoraði í gegnum þvögu Framara. Halldór Orri fékk svo gott færi til þess að stela sigrinum á lokasekúndunum en hann skóflaði skoti sínu yfir.

Leiknum lauk því 1-1 og hljóta leikmenn Fram að vera gríðarlega svekktir. Þeir fengu frábærann möguleika til þess að ná aftur tveggja stiga forskoti á Selfyssinga en misstu það á síðustu andartökum leiksins. Þeir lyfta sér þó yfir Selfyssinga en aðeins á markamun þegar aðeins tveir leikir eru eftir af Íslandsmótinu.

Daði: Sorglegt að tapa þessu„Þetta var alveg sorglegt að tapa þessu, við vorum manni fleiri í flottum möguleika að klára þetta en náðum ekki að halda út," sagði Daði Guðmundsson, leikmaður Fram.

„Það hefði verið gott að hafa tveggja stiga mun á Selfyssinga en þetta er ennþá í okkar höndum. Ef við vinnum okkar leiki, þá höldum við okkur uppi, það er bara þannig."

Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað og fóru bæði lið varfærnislega í hann.

„Það var mikil barátta, lítið um færi. Mér fannst við ná betur að taka boltann niður í seinni hálfleik og spila betur en við náðum ekki að klára."

Lítið var að gerast í leiknum fram að einstaklingsframtaki Sam Tillen sem veiddi vítaspyrnu og rautt spjald á Jóhann Laxdal. Tillen hinsvegar setti vítið langt yfir markið.

„Það var vel gert hjá honum en hann var óheppinn að klúðra vítinu, hann er búinn að nýta fjöldan allra víta í röð. Hann er okkar vítaskytta og við fyrirgefum honum þetta," sagði Daði.



Bjarni: Fyrri hálfleikurinn á dressman-hraða„Við einfaldlega gátum gjörsamlega ekki neitt í þessum leik fram á við, þessi leikur var sýndur á hálfgerðum dressman-hraða hérna í fyrri hálfleik," sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn.

„Við reyndum að þjappa okkur saman og koma skipulagi á þetta í seinni hálfleik. Við hinsvegar fórum ekki í stað fyrr en þegar við vorum manni færri og markinu undir."

Stjarnan missti Jóhann Laxdal af velli og fékk á sig víti á 63. mínútu og var víst að róðurinn yrði þungur þaðan í frá. Hann var hinsvegar sposkur þegar hann var spurður út í vítið.

„Ég sé þetta ekki, það verður að koma í ljós í sjónvarpinu. Hvort sem þú talar við Stjörnumann eða Framara, þá færðu mismunandi skoðun. Mér finnst hinsvegar alltaf óþarfi að reka menn útaf í þessari stöðu."

Fyrri hálfleikur var hægur og ekkert sérstakur fyrir augað.

„Mótið er að verða búið og við ætluðum að fara allt öðruvísi inn í þennan leik, við ætluðum að ná marki snemma en við vorum óvenju daufir og ég hef engar skýringar á því."

Stjörnumenn voru í góðu færi að komast yfir KR en eru þó enn yfir Breiðabliksliðið í baráttunni um Evrópusæti.

„KR eru svosem ekkert fyrir okkur, þeir eru komnir í Evrópukeppnina. Stigið er auðvitað gott miðað við hvernig þetta spilaðist í dag. Þetta er ennþá í okkar höndum að komast í Evrópukeppnina og ég ætla að vona að þessi leikur verði lærdómur fyrir okkur," sagði Bjarni.

Þorvaldur: Klaufaleg mistök kostuðu okkur„Þegar maður horfir á leikinn í heildina er þetta auðvitað gríðarlega sárt, við vorum manni fleiri, manni fleiri og brenna af víti en klaufaleg mistök kostuðu okkur," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram eftir leikinn.

„Við vorum duglegir og skipulagðir allann leikinn, á 90. mínútum fannst mér vera sterkari aðilinn í heildina en við töpum þessu á lokametrunum."

Mark Stjörnunnar kom á lokamínútum leiksins og gæti kostað þá dýrt í erfiðri fallbaráttu.

„Það er ekki hægt að segja neitt annað en það sé grátlegt að taka ekki stigin þrjú þegar þau bjóðast svona. Þetta hefur verið sagan okkar undanfarið en við tökum stigið og vonandi reynist það okkur dýrmætt þegar upp er staðið," sagði Þorvaldur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×