Íslenski boltinn

Þrettán ár síðan meistararnir unnu næsta leik eftir að titilinn vannst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason.
Atli Guðnason.
FH-ingar léku sinn fyrsta leik sem nýkrýndir Íslandsmeistarar í gær þegar þeir mættu Skagamönnum í 20. umferð Pepsi-deildar karla. Atli Guðnason tryggði FH-liðinu öll þrjú stigin í uppbótartíma og sá til þess að FH er fyrsti Íslandsmeistari karla í þrettán ár sem klárar titilinn fyrir síðustu umferð og vinnur næsta leik eftir að titilinn er í höfn.

Fimm lið höfðu verið í sömu stöðu frá og með árinu 2000 og engu þeirra tókst að vinna næsta leik eftir Íslandsmeistarafögnuðinn. FH-ingar töpuðu sem dæmi á móti ÍA í 16. umferð 2005 en þá urðu þeir eins og nú Íslandsmeistarar þegar þrjár umferðir voru eftir.

Síðasta meistaralið á undan FH til að vinna titilinn fyrir lokaumferðina og taka öll stigin í næsta leik á eftir voru KR-ingar. Þeir fögnuðu þá Íslandsmeistaratitlinum í næstsíðustu umferð 1999 og unnu síðan 3-2 sigur á Keflavík í lokaleiknum.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir þá meistara sem hafa verið í sömu stöðu og FH-ingarnir voru í Kaplakrikanum í gærkvöldi.

Næsti leikur eftir að Íslandsmeistaratitilinn er í höfn:

FH í 20. umferð 2012 - 2-1 sigur á ÍA

KR í 22. umferð 2011 - 0-0 jafntefli við Val

FH í 22. umferð 2009 - 2-2 jafntefli við Fylki

FH í 18. umferð 2006 - 1-1 jafntefli við Grindavík

FH í 16. umferð 2005 - 1-2 tap á móti ÍA

KR í 17. umferð 2003 - 0-2 tap á móti ÍBV

KR í 18. umferð 1999 - 3-2 sigur á Keflavík

ÍBV í 18. umferð 1997 - 1-3 tap á móti Leiftri

- 2010, 2008, 2007, 2004, 2002, 2001, 2000 og 1998 vannst titilinn í lokaumferðinni.

Samanlagt: 2 sigrar í 8 leikjum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×