Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir : ÍA - Fram 0-1

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Mynd/Daníel
Leikmenn Fram fögnuðu gríðarlega þegar Þóroddur Hjaltalín dómari flautaði til leiksloka á Akranesvelli í dag þar sem liðin áttust við í næst síðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. 1-0 sigur Fram var síst of stór en Skagamenn sóttu hart að marki Fram á lokakaflanum þar sem að Ögmundur Kristinsson markvörður Fram bjargaði hvað eftir annað með stórkostlegri markvörslu.

Fram sótti gegn sterkum vindi í fyrri hálfleik og þeir voru mun líklegri til þess að skora. Framarar fengu fín færi til þess að koma boltanum í netið en þeir fóru illa með færin sín.

Sam Tillen skoraði eina mark leiksins en Framliðið fékk mörg færi til þess að bæta við mörkum og Almarr Ormarsson skaut m.a. framhjá úr vítaspyrnu sem hann tók í síðari hálfleik.

Skagamenn voru langt frá sínu besta og það var ekki fyrr en undir lok leiksins  að liðið náði betri tökum á sóknarleiknum.  Liðið er sem stendur í 7. sæti en liðið hefur aðeins fengið 1 stig í síðustu þremur leikjum.  

Leikmenn Fram börðust eins og ljón fyrir þessum sigri – sem var sanngjarn. Þeir lögðu allt í sölurnar og uppskáru eftir því.

Páll Gísli er svekktur með stöðu liðsins

„Ég er svekktur og alls ekki sáttur við stöðuna á liðinu núna. Við höfum fengið nokkra sénsa til þess að stimpla okkur inn á meðal efstu liða deildarinnar. Það hefur ekki gengið eftir og ég er ekki í þessu til þess að enda í 8. eða 9. sæti,“  sagði Páll Gísli Jónsson markvörður ÍA. „Það er eins og of margir leikmenn í liðinu hafi ekki sjálfstraust til þess að stíga upp í svona leikjum,“ bætti hann við.

Ögmundur: Gaman þegar vel gengur

„Það er gaman þegar vel gengur og ég hafði nóg að gera þarna undir lokinn,“ sagði Ögmundur Kristinsson markvörður Fram en hann bjargaði liðinu með frábærri markvörslu á lokakaflanum í 1-0 sigri liðsins gegn ÍA í dag. „Við höfðum bara eitt markmið – að vinna leikinn. Það tókst en það stóð tæpt undir lokinn. Við vorum betra liðið í þessum leik og áttum skilið að fara með stigin þrjú,“ sagði Ögmundur



Þorvaldur: Fengum færin til að gera út um þetta

„Við fengum færin í þessum leik til þess að gera út um þetta. Ég held að 3-0 sigur hefði ekki verið óeðlilegt miðað við öll færin sem við fengum,“  sagði Þorvaldur Örlygsson þjálfari Fram í leikslok. „Það fór aðeins um mig þarna undir lok leiksins þar sem að Ögmundur bjargaði málunum í markinu – en við þurfum að nýta færin betur til þess að komast hjá því að lenda í svona stöðum leik eftir leik. Það er engin regla hjá mér hver á taka vítin, sá sem telur sig getað skorað tekur bara ákvörðunina sjálfur,“ sagði Þorvaldur en Framliðið hefur ekki náð að skora úr vítaspyrnum í síðustu tveimur leikjum liðsins. „Við þurfum að halda einbeitingunni fyrir lokaumferðina og eins og ÍA er að spila núna þá getum við ekki stólað á að þeir vinni Selfoss í síðasta leiknum,“ sagði Þorvaldur.

„Þetta var alls ekki nógu gott hjá okkur. Við vorum slakir og ég er ósáttur við leik liðsins,“  sagði Þórður Þórðarson þjálfari ÍA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×