Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - FH 2-2 | ÍBV náði Evrópusætinu

Guðmundur Tómas skrifar
Mynd/Anton
Eyjamönnum tókst að tryggja sér Evrópusætið þrátt fyrir að missa niður 2-0 forystu á síðustu þrettán mínútunum á móti Íslandsmeisturum FH á Hásteinsvellinum í dag. Þórarinn Ingi Valdimarsson skoraði fyrra mark Eyjamanna en það seinna var sjálfsmark FH-inga. FH-ingar gáfust ekki upp og jöfnuðu leikinn með tveimur mörkum á lokamínútunum. Stigið nægir ÍBV þar sem að helstu keppinautar þeirra, Stjarnan og Breiðablik, mætast í lokaumferðinni.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, hvíldi lykilmennina Bjarka Gunnlaugsson, Frey Bjarnason og Gunnleif Gunnleifsson í þessum leik.

Þórarinn Ingi Valdimarsson kom ÍBV í 1-0 á 57. mínútu með frábæru skoti eftir stoðsendingu frá Tryggva Guðmundssyni

Seinna mark ÍBV kom á 75. mínútu eftir hornspyrnu Guðmundar Þórarinssonar en Ólafur Páll Snorrason varð þá fyrir því að skalla boltann í eigið mark og ÍBV var því komið í 2-0.

FH-ingar voru ekkert á því að gefast upp. Björn Daníel Sverrisson minnkaði muninn fyrir FH á 79. mínútu eftir sendingu frá Ólafi Pál Snorrasyni og Albert brynjar Ingason jafnaði síðan leikinn á 85. mínútu eftir frábæra sókn og aðra stoðsendingu frá Ólafi Páli sem var því búinn að bæta fyrir sjálfsmarkið.

Heimir: Sáttur með stigin úr því sem komið var„Það er ekki spurning að ég sé sáttur með stigin, úr því sem komið var. Mér fannst við vera sterkir í fyrri hálfleik, létum boltann ganga ágætlega. Í seinni hálfleik voru ÍBV betri og komust verðskuldað í 2-0 en eftir það er ég sáttur með þá baráttu sem að strákarnir sýndu," sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH í lok leiks, en FH er nú þegar búið að tryggja sér titilinn og tefldi ekki fram sínu sterkasta liði í dag.

„Óli Palli og Emil Páls komu báðir mjög sterkir inn, þeir eiga stóran þátt í því að við komum til baka í dag. Óli Palli er með frábærar fyrirgjafir, um leið og hann kom inn á þá kom hætta með fyrirgjöfum, hann er með flottan fót og setur boltann í svæðið milli varnar og markmanns," sagði Heimir um Ólaf Pál og Emil Pálsson, sem komu sterkir inn á í leiknum í dag.

Guðmundur Þórarins: Okkur líður eins og við höfum tapað 3-0„Þetta er vissulega svekkjandi, okkur líður eins og við höfum tapað 3-0, þó að við gerum jafntefli og tryggjum okkur Evrópusæti. Stemningin í klefanum er allavega ekki eins og við höfum verið að tryggja okkur Evrópusæti," sagði Guðmundur Þórarinsson í lok leiks, hann átti hornspyrnu sem Ólafur Páll skallaði í eigin net í leiknum.

„Við stefndum á það að vinna meistarana, það er alltaf frekar skemmtilegt. Við vorum grátlega nálægt því, svekkjandi mörk sem við fáum á okkur, en á móti kemur að við höfum að einhverju að keppa í leiknum gegn Fram. Við stefnum á að vinna þann leik," sagði Guðmundur, en hann var ekki sáttur með að liðið hafi hætt að spila sinn leik og gefið FH-ingum þessi tvö mörk.

„FH er með þvílíkt flottan hóp, það koma auðvitað 3 góðir leikmenn inn á völlinn í stað þeirra sem yfirgefa hann, en ég held að þetta hafi nú frekar verið okkur sjálfum að kenna að við unnum ekki þennan leik. Við förum í „panic" og gefum langa bolta og völlurinn var erfiður, boltinn fleyttist alltaf áfram. Við hefðum átt að halda áfram að spila okkar leik en því miður gerðum við það ekki," sagði Guðmundur, sem getur borið höfuðið hátt eftir þennan leik, sem hann spilaði vel.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×