Innlent

Grunur um eitraða lifrarpylsu - hundasýningu frestað

BBI skrifar
Mynd/Hörður
Hundaræktunarfélagið Rex neyddist til að fresta hundasýningu sem átti að fara fram í reiðhöll Gusts í Kópavogi í morgun. Einhver hafði brotist inn í höllina og dreift lifrarpylsu um alla höllina og fyrir utan sömuleiðis. Vegna grunsemda um að lifrarpylsan væri eitruð var ákveðið að aflýsa sýningu í dag.

„Það liggur fyrir að það var eitthvað í lifrarpylsunni. Við vitum bara ekki hvað það er," segir Ásgeir Guðmundsson, formaður hundaræktarfélagsins, og útilokar ekki að um eitur hafi verið að ræða.

Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu og lifrarpylsan hefur verið send í efnagreiningu. Ásgeir vill ekkert tjá sig um hvort einhver liggur undir grun vegna uppátækisins.

Ákveðið var að taka enga áhættu og fresta sýningunni þangað til á morgun í stað þess að hleypa hundum inn í höllina. „Þetta eru náttúrlega glæsilegri hundar, einhverjir verðlaunahundar, svo tjónið hefði orðið gríðarlegt ef tekist hefði að eitra fyrir þeim," segir Ásgeir.

Ásgeir vill beina þeim ummælum til almennings að halda öllum dýrum frá höllinni í bili þar til málið hefur verið rannsakað enda var lifrarpylsu dreift fyrir utan höllina. Hann ráðleggur jafnvel börnum að vera ekki mikið á svæðinu.

Sýningin fer fram á morgun í Mosfellsbæ í staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×