Innlent

Rjúpnaveiðimenn veiði hóflega

BBI skrifar
Mynd/GVA
Skotveiðifélag Íslands (Skotvís) vill beina því til rjúpnaveiðimanna að veiða hóflega og bara fyrir sig og sína þegar rjúpnaveiðitímabilið hefst. Formaður Skotvís er sáttur við níu daga veiðitímabilið sem stjórnvöld heimila þó hann hefði vel getað hugsað sér að veiða meira.

Í mati Náttúrufræðistofnunar kemur fram að rjúpnastofninn sé nú á niðurleið um land allt. Af þeim sökum verður aðeins heimilað að veiða rjúpu níu daga í ár, líkt og í fyrra. Það er helmingi minna en árin áður, en þá voru veiðar leyfðar 18 daga á ári.

„Okkur finnst þetta lítið," segir Elvar Árni Lund, formaður Skotvís, en bætir við að þetta sé skárra en ekki neitt. „Við vildum reyndar meina að það hefði ekki verið veitt neitt mikið meira þó veiðar hefðu verið heimilaðar 18 daga. Það var okkar afstaða. En við mætumst þarna á miðri leið."

Elvar tekur undir að stofninn hafi oft verið stærri en núna og því sé skiljanlegt að reynt sé að takmarka veiðarnar. „En stofninn þolir samt alveg veiðar að ákveðnu marki," segir hann. „Við viljum bara halda áfram þessu hófsemis átaki, að fólk veiði hóflega. Ef við pössum það geta allir veitt oftar og meira."

Skotvís byrjaði fyrir mörgum árum að agitera fyrir því að menn sýndu hófsemd við rjúpnaveiðar að sögn Elvars.


Tengdar fréttir

Rjúpnaveiðar með sama sniði

Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur ákveðið að rjúpnaveiðar verði heimilar í níu daga líkt og haustið 2011 og dreifist veiðitímabilið á fjórar helgar líkt og þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×