Innlent

Flokksval um efstu sætin hjá Samfylkingunni

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Samfylkingin hefur ákveðið að hafa flokksval um í efstu sæti lista flokksins í norðvestur og norðaustur kjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar í vor. Opin prófkjör hafa verið bönnuð.

Flokksmenn Samfylkingarinnar héldu Kjördæmaþing í Norðvestur og Norðaustur kjördæmi í gær og var þar samþykkt að val á framboðslista fyrir komandi Alþingiskosningar í báðum kjördæmum yrði eftir flokksvali, það er að flokksmenn velji í efstu fjögur sætin í norðvesturkjördæmi og efstu sex sæti í norðausturkjördæmi. Aðeins flokksfélagar geta tekið þátt í Norðvesturkjördæmi en bæði stuðningsmenn og flokksfélagar í norðaustur.

„Stuðningsmenn þá geta þeir sem eru ekki flokksbundnir undirritað stuðningsyfirlýsingu sjö dögum fyrir kjördag," segir Sigrún Jónsdóttir framkvæmdarstjóri Samfylkingarinnar en hún segir að ákveðið hafi verið að hætta með opin prófkjör og fengu kjördæmaráðin að velja á milli flokksvals meðal bara flokksfélaga eða einnig stuðningsmanna, uppstillingar eða kjörfunda.

„Það var samþykkt á flokkstjórnarfundi 25.ágúst að það væri þessar fjórar skuldbinandi leiðir og það var meðal annars umræðan í kjölfarið á umbótaskýrslunni veturinn 2010 að þessi opnu prófkjör væru ekki góð leið til að velja á framboðslista," segir hún.

Kjördæmaþing í suðurkjördæmi fer fram í Reykjanesbæ í dag og verður þá ákveðið hvernig raðað verður á lista þar en samkvæmt tillögu stjórnar kjördæmaráðsins er lagt til að flokksval verði einnig þar. Þá munu kjördæmaþing í suðvesturkjördæmi fara fram á fimmtudag og í byrjun október í Reykjavík. Sigrún segir það hafa gefist vel að vera snemma búin að velja á framboðslista.

„Þá er bara nægur fyrirvari og hægt að kynna frambjóðendur og undirbúa sig vel, svo erum við með landsfund í byrjun febrúar 2013 og þá er gott að þeir sem ætla að vera í forsvari í kosningunum í apríl 2013 séu til staðar," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×