Íslenski boltinn

Rúnar: Eins og menn hafi tapað trúnni | Mistök að breyta bikarkeppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var í ítarlegu viðtali hjá Hirti Hjartarsyni í Boltanum á X-inu í dag. Þar segir hann að það hafi verið mistök að færa úrslitaleik bikarkeppninnar fram í ágústmánuð.

KR-ingar hafa gefið mikið eftir á lokaspretti Pepsi-deildar karla en liðið tapaði í gær fyrir Fylki, 3-2. „Það væri gott að vera með reið svör á höndum fyrir mig sem þjálfara. Það er erfitt að svara þessu," sagði Rúnar.

„Það er ljóst að við höfum ekki staðið okkur vel að undanförnu. Þetta byrjaði eftir þennan leik gegn FH sem allir töluðu um. Okkur gekk vel í þeim leik en eftir hann voru sex umferðir eftir og staðan ágæt - þó svo að FH ætti leik til góða."

„Þá var ljóst að við þurftum að vinna næsta leik en hann var gegn Fram. Það gekk ekki eftir og FH vann leikinn sem liðið átti inni. Þá var eins og að mínir menn hefðu tapað trúnni. Við áttum svo slakan leik gegn Selfossi og þá datt allur botn úr þessu, því miður."

Rúnar segir að sínum mönnum hafi gengið vel í upphafi móts, þó svo að liðið hafi ekki endilega verið að spila vel. „Við vorum að bíða eftir því að þetta myndi hrökkva í gang hjá okkur. Við áttum mjög góðan leik gegn ÍA í upphafi seinni umferðarinnar og þá hélt ég að við værum komnir í gang. En það reyndist ekki raunin."

KR varð bikarmeistari og Rúnar minnir á að liðið hafi einnig orðið deildabikarmeistari og meistari meistaranna. „En eftir þetta skipsbrot gegn Fram hefur leiðin legið niður á við. Andlega hliðin hefur ekki verið nægilega sterk og sjálfstraustið ekki til staðar."

KR stóð í ströngu í sumar enda fór liðið alla leið í bikarúrslitin og tók þátt í Evrópukeppni. Rúnar segir að það hafi verið mistök að færa bikarúrslitaleikinn fram í ágúst eins og var gert fyrir fáeinum árum síðan.

„Ég var sammála breytingunni á sínum tíma en hef nú skipt um skoðun. Leikjaálagið fyrir lið sem eru bæði í bikarnum og Evrópukeppninni á sama tíma verður allt of mikið og íslensk lið eiga einfaldlega ekki leikmannahópa til að takast á við allt þetta."

„Það er vissulega skemmtilegra að hafa bikarúrslitaleikinn í ágúst [en í lok september] en engu að síður tel ég að þetta hafi verið rangt."

Viðtalið má heyra í heild sinni hér fyrir ofan. Það hefst þegar um fimm mínútur eru liðnar af upptökunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×