Innlent

Krabbamein í munnholi eykst á sama tíma og reykingar minnka

Krabbamein í munnholi fer vaxandi og það sem verra er, það greinist nú í yngra fólki en áður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Sigurð Benediktsson, formann tannlæknafélagsins, í Reykjavík síðdegis í dag.

„Enginn veit nákvæmlega hversvegna nákvæmlega krabbameini í munnholi fer fjölgandi," segir Sigurður en meðalaldur þeirra sem greinast með munnholskrabbamein eru 69 ára. Helsti áhrifavaldurinn er áfengisdrykkja og reykingar. Nú ber þó svo við að krabbamein í munnholi fer vaxandi á sama tíma og reykingarmönnum fækkar. „Og þá vilja menn sjá fækkun krabbameina," segir Sigurður en svo virðist ekki vera í þessum flokki krabbameina. Að auki greinast nú yngri einstaklingar með meinið en áður.

Ekki ber öllum saman hversvegna þessi þróun sé að eiga sér stað, en ein af ástæðunum sem hafa verið nefndar eru munnmök.

Sigurður bendir á að krabbamein í munnholi sé afar illvígt krabbamein. Þannig lifi aðeins helmingur sjúklinga með krabbameinið í fimm ár en yfirleitt greinist krabbameinið mjög seint, þá er það búið að dreifa sér og lítið hægt að gera.

Sigurður bendir fólki á að vera duglegt að mæta til tannlæknis og auðvitað hætta reykingum. Á hverju ári deyja um 15 einstaklingar úr krabbameini í munnholi hér á landi.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Sigurð hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×