Innlent

Vék sæti vegna vanhæfis í Icesave-málinu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Dómari skipaður af Norðmönnum vék sæti í EFTA-dómstólnum í samningsbrotamáli gegn Íslandi vegna greinar sem hann skrifaði um innistæðutryggingar í norska dagblaðið Aftenposten. Búast má við að dómur í málinu liggi fyrir innan 3 mánaða, en málið verður flutt fyrir dómstólnum á þriðjudag.

Dómarar EFTA-dómstólsins í Lúxemborg eru skipaðir fulltrúum EFTA-ríkjanna, Íslands, Noregs og Liechtenstein.

Páll Hreinsson dæmir í málinu

Starfandi aðaldómarar við dómstólinn eru þeir Carl Baudenbacher, frá Liechtenstein, Páll Hreinsson, hæstaréttardómari í leyfi frá Íslandi og Per Christiansen, frá Noregi.

Í EFTA-dómstólinn veljast gjarnan hæfustu dómarar og fræðimenn EFTA-ríkjanna. Páll Hreinsson mun ekki víkja sæti enda þurfa dómarar við dómstólinn ítrekað að dæma í málum eigin þjóðríkja.

Per Christansen sagði sig frá málinu vegna vanhæfis, en samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar er það vegna greinar sem hann skrifaði um málið í norska dagblaðið Aftenposten. Ola Mestad, setudómari við dómínn og prófessor við Oslóarháskóla, hefur tekið sæti hans.



Páll Hreinsson, hæstaréttardómari í leyfi, er dómari við EFTA-dómstólinn. Páll, sem er fyrrum prófessor og forseti lagadeildar HÍ, gat sér gott orð sem einn nefndarmanna í rannsóknarnefnd Alþingis. Páll dæmir í málinu gegn Íslandi, enda þurfa dómararnir við dómstólinn reglulega að dæma í málum sem varða eigin þjóðríki.
Málið verður flutt næstkomandi þriðjudag, 18. september, klukkan 8 að morgni að íslenskum tíma og á máflutningur að taka 4-5 klukkustundir. Engin tímamörk eru sett eftir að málið er dómtekið, en miðað við önnur samningsbrotamál fyrir EFTA-dómstólnum ætti niðurstaða að liggja fyrir eftir 2 - 3 mánuði.

Enski lögmaðurinn Tim Ward flytur málið fyrir hönd Íslands, en auk Ward eru 7 sérfræðingar í teyminu sem fer til Lúxemborgar.

Í málinu er eingöngu tekist á um meint samningsbrot Íslands samkvæmt EES-samningnum vegna tilskipunar 94/19 um innistæðutryggingar. ESA, eftirlitsstofnun EFTA, krefst viðurkenningar á því að Ísland hafi brotið EES-samninginn þar sem stjórnvöld hafi ekki tryggt að sparifjáreigendur á Icesave í Hollandi og Bretlandi gætu ekki gengið að lágmarkstrygginu, 20.887 evrum, þegar Landsbankinn féll. Ekki er tekist á um fjárhæðir eða meinta skaðabótaskyldu íslenska ríkisins. Þannig að í raun gerist ekkert fyrst um sinn ef Ísland tapar málinu. Ísland þarf síðar að efna skyldu sína ef það telst hafa brotið gegn tilskipun 94/19 og EES-samningnum.

Kröfur á hendur íslenska ríkinu vegna vaxtakostnaðar hollenskra og breskra stjórnvalda, þegar og ef Ísland yrði dæmt um að hafa sýnt af sér vanrækslu, þyrfti að setja fram í máli gegn íslenska ríkinu, en heimavarnarþing íslenska ríkisins er Héraðsdómur Reykjavíkur. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×