Innlent

Innbrotum fækkar umtalsvert

BBI skrifar
Innbrotum hefur fækkað umtalsvert á síðustu misserum. Innbrot á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári hafa verið um fjórðungi færri en á sama tíma í fyrra. Sé miðað við meðaltal síðustu þriggja ára er um helmings fækkun að ræða.

Í ágústmánuði þetta árið var aðeins tilkynnt um 67 innbrot á höfuðborgarsvæðinu. Það er minnsti fjöldi innbrota sem skráður hefur verið á svæðinu. Árið 2009 var tilkynnt um fjórum sinnum fleiri innbrot.

Í afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að þennan árangur megi þakka markvissum vinnubrögðum lögreglunnar við að taka úr umferð virka brotamenn og koma málum þeirra í viðeigandi farveg.

Tafla úr afbrotatölfræði lögreglustjórans
Í töflunni hér til hliðar koma ofangreindar upplýsingar fram. Einnig kemur fram að þjófnuðum almennt fækkaði um sjö prósent milli ára. Eignaspjöllum hefur fækkað um 16% það sem af er ári en ofbeldisbrotum fjölgar hins vegar um 5%. Umferðarslysum hefur fækkað um níu prósent á þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×