Innlent

Biðtími hælisleitenda lengist í tvö ár án aukinna framlaga

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Biðtími hælisleitenda eftir að fá mál sín afgreidd hjá Útlendingastofnun lengist í allt að tvö ár ef framlög til stofnunarinnar verða ekki aukin. Þetta segir forstjóri stofnunarinnar og að það séu vonbrigði að í nýju fjárlagafrumvarpi sé gert sé ráð fyrir nær óbreyttum fjárframlögum til stofnunarinnar.

Hælisleitendum hefur fjölgað hér á landi síðustu ár. Á sama tíma hafa þeir þurft að bíða lengur eftir að fá afgreiðslu sinna mála hjá Útlendingastofnun. Stofnunin hefur talið nauðsynlegt að fá aukið fjármagn til að geta stytt biðtímann. Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segir það því hafa verið vonbrigði að sjá í nýju fjárlagafrumvarpi, sem kynnt var í vikunni, að fjárframlög hins opinbera til stofnunarinnar haldast nær óbreytt. Þannig fær stofnunin nær 176 milljónir til reksturs en Kristín segir það sömu upphæð og í fyrra með verðbótum.

„Það þýðir það að álagið mun ekki minnka þvert á móti það mun aukast ef það kemur ekkert inn í fjáraukalögum," segir Kristín. Hún segir hælisleitendur nú þurfa að bíða í rúmt ár eftir að fá mál sín afgreidd. Ef stofnunin fái ekki meira fjármagn komi biðtíminn til í að lengjast.

„Þá erum við farin að banka upp á 2 ára biðtíma. Þá náttúrulega erum við líka að horfa fram á það að fólk springur á limminu starfsmenn þola ekkert svona álag. Því að viðskiptavinurinn, hælisleitendur, dvalarleyfishafar, áritunarhafar, þeir láta það ekkert líða að þeir þurfa að bíða endlaust þannig að þeir munu hanga á okkur með kröfur og ósk um skýringar þannig að fólk gefst þá bara upp," segir Kristín.

Hún vonast til að þegar málið verði rætt á Alþingi þá verði breyting á og að í fjáraukalögum verði gert ráð fyrir auknum framlögum til stofnunarinnar.

„Stjórnvöld hafa lofað því að bæta hag stofnunarinnar og setja hag stofnunarinnar og setja fjármagn í málaflokkinn og ef það gerist ekki fjárlögum þá náttúrulega gerist það ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×