Innlent

Lögreglan í Vestmannaeyjum leitar vitna vegna íkveikju

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út í Vestmannaeyjum rétt fyrir klukkan sjö í morgun þegar íbúð eyðilagðist í eldi. Lögreglan í Vestmannaeyjum lýsir eftir vitnum sem geta gefið upplýsingar um málið en talið er að brennuvargur hafi kveikt í húsinu um klukkan sex í morgun.

Bruninn varð á Vestmannabraut 37 en íbúðin er á efri hæð hússins, sem er tvílyft. Íbúðin var mannlaus þegar það kviknaði í. Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn í Eyjum segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi. Rannsóknarlögreglumaður frá Selfossi er þegar kominn til eyja og von er á tæknimönnum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu síðar í dag.

Þegar slökkviliðið kom að í morgun var mikill reykur í íbúðinni og fóru reykkafarar inn í íbúðina til að ganga úr skugga um að engin væri inni í henni. Íbúðin er talsvert skemmd, fyrst og fremst vegna reyks og hita. Verslun er á neðri hæð hússins en engar skemmdir urðu á henni, hvorki vegna vatns, hita eða reyks.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um málið er vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í Vestmannaeyjum í síma 481 1665.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×