Innlent

Bændur á Norðurlandi fá bætur

BBI skrifar
Myndin er tekin í Mývatnssveit.
Myndin er tekin í Mývatnssveit. Magnús Viðar Arnarsson
Bændur sem hafa orðið fyrir tjóni og misst fé vegna óveðursins á Norðurlandi í síðustu viku munu fá bætur úr Bjargráðasjóði. Enn liggur ekki fyrir hvert tjónið í heild sinni er og mun líklega ekki verða ljóst fyrr en í október eða nóvember.

Hildur Traustadóttir, stjórnarformaður Bjargráðasjóðs, útskýrir að til séu töluleg viðmið um hve mikils virði hvert lamb og hver kind séu. Bændur munu líklega fá greitt úr Bjargráðasjóði samkvæmt því en þó muni einhver sjálfsábyrgð bænda koma inn í þá jöfnu.

Bjargráðasjóður er í eigu ríkisins og Bændasamtaka Íslands og hefur það hlutverk að bæta einstaklingum, félögum og sveitarfélögum tjón af völdum náttúruhamfara.

„En þó bændur fái bætur samkvæmt þessum stöðlum verður aldrei allt bætt. Það leggst til dæmis gríðarleg vinna á herðar þeirra sem aldrei fæst bætt," segir Hildur. „En þetta verður bætt eins vel og við getum og við erum byrjuð að vinna að því."

Leit stendur enn yfir og því er ekki ljóst hve mikil afföll verða. Bændur þykjast vita að mikið fé sé enn uppi á afréttum. Leit hefur staðið yfir undanfarna daga en vegna veðurs var ákveðið að hvíla mannskapinn í dag og því verður ekkert er leitað á Þeistareykjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×