Íslenski boltinn

Bjarki Gunnlaugs: Átti eitthvað inni hjá fótboltaguðinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Gunnlaugsson var í viðtali hjá Hirti Hjartarsyni í Boltanum á X-inu í dag og ræddi þá um Íslandsmeistaratitilinn sem hann vann með FH í gærkvöldi. Bjarki hefur ákveðið að þetta sé hans síðasta tímabil í boltanum og honum tókst því að enda ferilinn sem Íslandsmeistari.

„Það er alltaf gaman að vinna fyrsta titilinn sem var nota bene fyrir 20 árum síðan á móti FH á heimavelli," sagði Bjarki Gunnlaugsson í upphafi viðtalsins en Bjarki skoraði þá eitt og lagði upp tvö í 3-1 sigri. Hjörtur og Bjarki byrjuðu annars að tala um sætustu sigrana á ferli Bjarka.

„Þessi sigur í gær, fyrsti sigurinn með ÍA og sigurinn með KR 1999 eru eftirminnilegastir," sagði Bjarki sem varð einnig Íslandsmeistari með ÍA 1995, með KR 2003 og með FH 2008

„Það sem gerir þennan titil sérstaklega sætan er að maður er orðin svo gamall og þá metur maður þetta meira. Síðustu tíu ár hafa verið svolítið erfið hjá mér í þessum blessaða fótbolta og eins og ég hef sagt áður þá var ég aldrei sáttur við það hvernig þetta hefur þróast hjá mér. Bæði að þurfa að hætta snemma í atvinnumennsku og koma svo heim og vera eftir meira eða minna meiddur," sagði Bjarki.

„Það var allt lagt í þetta á undirbúningstímabilinu í vetur með það markmið að vinna titilinn núna. Það tókst sem betur fer þannig að maður getur hætt sáttur," sagði Bjarki.

„Ég hafði það á tilfinningunni að ég ætti eitthvað inni hjá fótboltaguðinum eftir að hafa lagt ansi mikið í þetta í gegnum tíðina. Ég hef æft vel allan tímann en ekki fundið réttu formúluna fyrir mig. Sem betur fer fann ég hana í vetur, æfði mjög vel og byrjaði strax í fótbolta í nóvember, sem ég hef ekki gert, ásamt því að taka vel á því í hlaupum, lyftingum og öðru slíku. Ég lagði allt í þetta með því að taka titilinn og hætta sáttari," sagði Bjarki.

Bjarki dásamar FH og Heimi Guðjónsson, þjálfara liðsins, í viðtalinu við Hjört.

„Það er ótrúleg hefð sem er búin að skapast í FH. Þetta var alltaf bara Fimleikafélag Hafnarfjarðar og klúbbur sem allir nánast hlógu af. Í kringum aldarmótin 2000 fóru hlutirnir að gerast. Logi Ólafs byrjaði á þessu og síðan hafa þeir ráðið vel. Þeir hafa ráðið góða þjálfara, fengið góða leikmenn og fundið sinn spilstíl sem allir þekkja. Þeir eru ekkert að breyta miklu eins og önnur félög eru að gera," sagði Bjarki.

„Það virðist vera óþarflega mikil "panik" í flestum félögum á Íslandi þegar leikir tapast. Þá þarf að breyta öllu og ýmsir sérfræðingar koma til sögunar og vilja henda hinum og þessum leikmönnum út úr liðinu. Maður sér það ekkert gerast hjá FH," sagði Bjarki.

„Heimir er topp nútíma-þjálfari sem undirbýr liðið vel. Hann vinnur líka vel fyrir kaupinu sínu á leikdegi sem skiptir mestu máli fyrir þjálfara. Ef eitthvað gengur ekki upp í leik þá hefur hann hugrekki til að breyta til, skipta leikmönnum út og hræra aðeins til," sagði Bjarki.

„Það sem gerir Heimir að góðum þjálfara er að hann er með eigin markmið og eigin stefnu. Hann er með góða aðstoðarmenn með sér í Guðlaugi og Eiríki en það er hann sem tekur ákvarðanirnar og stendur og fellur með þeim. Það er mikilvægt hjá þjálfara að vera ekki að "panikka" þegar einn og einn leikur tapast," sagði Bjarki og bætti við.

„Á Íslandi er langt undirbúningstímabil og það er ástæða fyrir því að þetta heitir undirbúningstímabil því þú ert að undirbúa liðið fyrir átök. Það er oft þannig á Íslandi að liðið virðast breytast oft ansi mikið á milli leikja," segir Bjarki.

„FH er með ákveðna formúlu sem hefur gengið vel og það er kannski engin þörf á því að breyta. Það er kalt á toppnum og það vilja allir vinna FH. Þess vegna er þetta er merkilegri en maður heldur að halda sér á toppnum svona lengi," sagði Bjarki.

Það er hægt að hlusta á allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×