Innlent

Innlyksa í tæpa viku og alsæl

Karen Kjartansdóttir skrifar
Kanadíska parið sem varð innlyksa í skála upp á hálendi í tæpa viku, eftir að hafa leitað skjóls undan óveðrinu á Norðurlandi hlakkar til að koma aftur hingað til lands. Það þakkar sínu sæla fyrir að hafa verið bjargað áður en kaffið gekk til þurrðar.

Þau Zoe og Chris frá borginni Ottawa í Kanada segjast hafa átt góðar stundir á Íslandi þrátt fyrir nokkrar hrakningar á ferð sinni en á ferð sinni um hálendið á sunnudag skall á mikið óveður og þurftu þau að leita skjóls í skála Ferðafélags Íslands við Laugafell nærri Hofsjökli.

„Fyrst við þurftum að einangrast einhvers staðar á Íslandi var þetta mjög góður staður. Þarna var upphitaður skáli. Við létum bara fara vel um okkur og biðum þangað til einhver kom og gat keyrt okkur aftur niður á ströndina," segir Chris Macknie.

„Fyrsta daginn reyndum við að gera okkur sýnileg, daginn eftir storminn. Við settum appelsínugula ábreiðu yfir bílinn, hengdum appelsínugult vesti upp í flaggstöngina og skrifuðum SOS í snjóinn svo við værum sýnileg ef einhver kæmi. Við athuguðum hvað við hefðum mikinn mat og skömmtuðum hann svo við hefðum nægan mat í heilan mánuð. Við flettum líka í gegnum gestabækurnar og sáum að fólk kom í skálann flestar helgar í september og október svo við töldum að kannski myndi einhver koma þangað," segir Zoe Panchen.

Þau segjast samt ekki hafa verið alveg viss um að einhver kæmi því snjórinn var djúpur og veðrið vont

„Við vorum ekki gripin skelfingu en við höfðum áhyggjur. Okkur datt líka í hug að ganga til byggða en það hefði verið 50 kílómetra ganga og við töldum það ekki skynsamlegt. Manni er alltaf sagt að halda sig hjá bílnum og þegar við ókum burt varð okkur ljóst að við hefðum aldrei getað gengið alla leið. Snjórinn var of djúpur."

Bæði hafa þau Zoe og Chris tekið þátt í þolíþróttum, meðal annars náð góðum árangir í Járnkalls keppnum eða Ironman eins og þessar erfiðu þríþrautarkeppnir kallast á ensku.

Þau segjast ætla koma aftur fljótlega enda hafi þau ekki náð að klífa hæstu tinda landsins eins og til stóð.

„Mér finnst það frábært að maður getur farið hvert sem er og gert hvað sem er. Það eru mjög fáar reglur. Mér finnst frábært hvað fólk drekkur mikið kaffi hérna. Íslendingar stóðu sig frábærlega við að hjálpa okkur, frá því við fundumst í skálanum og þangað til við förum úr landi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×