Innlent

Nauðsynlegt að ganga vel frá gaskútum

Jón Viðar Matthíasson.
Jón Viðar Matthíasson.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, segir að gassprengingin í Ofanleiti um helgina sé mikilvæg áminning til þeirra sem eru með gaskúta á heimilum sínum. Nauðsynlegt sé að ganga vel frá þeim.

Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að sprenginguna megi rekja til gasleka. Ellefu kílóa gaskútur hafi verið í íbúðinni og ljóst er að úr honum hafi lekið í nokkurn tíma áður en sprengingin varð. Karlmaður var í íbúðinni þegar slysið átti sér stað en hann lést af sárum sínum í dag.

„Það eru margir með gaskúta á heimilum sínum, bæði inni og úti. En það sem skiptir mestu máli er að fagmenn komi að því að leggja lagnir, setja upp skynjara og að koma þeim búnaði fyrir sem þarf," sagði Jón Viðar í samtali við Reykjavík síðdegis í dag.

„Nú nálgast sá tími þegar menn fara að taka grillin inn. Ef fólk er ekki hentugan geymslustað fyrir gaskútinn — opið rými eða geymsla sem vel loftar um — þá er auðvitað einfaldast að skila kútnum til söluaðila."

Jón Viðar segir að frá byrjun hafi það verið ljóst að sprengingin í Ofanleiti hafi verið eitthvað mun meira en eldsvoði. „Við verðum samt sem áður að vera varkárir og hoppa ekki um leið á það að gassprengingu hafi verið að ræða. Við vitum að ýmiskonar starfsemi getur framkallað svona sprengingar."

„Við lendum þó afar sjaldan í því að í eldsvoða séu gaskútar inn í byggingunni," segir Jón Viðar og bendir á að þetta atvik sé áminning til þeirra sem eru með gaskúta á heimilum sínum. Nauðsynlegt sé að ganga vel frá þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×