Innlent

Börnin hætt að þrífa sig og borða

Lillý Valgerður Pétursdóttir. skrifar
Á hverju ári koma börn á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans sem þjást af tölvufíkn. Félagsráðgjafi segir sum þeirra hætta að þrífa sig og borða.

Erlendar rannsóknir sýna að hátt í fimm prósent unglinga eru með einhver einkenni tölvufíknar. Guðlaug Júlíusdóttir félagsráðgjafi n hefur síðasta áratug starfað sem félagsráðgjafi á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Hún segir að á hverju ári komi nokkur börn á deildina sem eru orðin mjög háð tölvunni. Í alvarlegustu tilvikunum hefur lögregla verið kölluð á heimili barnanna enda hafa foreldrar þeirra enga stjórn á tölvunotkun barnanna lengur.

„Það er yfirleitt þannig að fjölskyldan öll er orðin undirlögð af þessu fyrirbæri," segir Guðlaug. „Tölvan er orðin mjög valdamikil á heimilinu."

Hún segir foreldra oft hafa reynt ýmislegt áður en börnin koma á deildina og vandann vera orðinn alvarlegan.

„Börnin eru þá mjög oft orðin algjörlega félagslega einangruð, að detta út úr námi, eru ekki að sinna þessum athöfnum daglegs lífs, þau eru ekki jafnvel að þrífa sig borða eða fara á klósett og þess háttar."

Guðlaug segir börnin fá margvíslega aðstoð á deildinni. Sum þeirra þurfi til að mynda kvíðastillandi lyf. Mikilvægt sé að foreldrar sem hafa áhyggjur af tölvunotkun barna sinna ræði það við þau. Þá þurfi að leggja línurnar um leið og börnin byrja að nota tölvur. Hafa eigi í huga að börn eiga ekki að nota tölvur nema í hálftíma í senn og slökkva á þeim tveimur tímum áður en þau fara að sofa.

„Birtuskilyrði eru stillt þannig í tölvunni að birtan blekkir hugann til þess að halda að það sé ann þá dagur. Við þurfum rökkrið og við þurfum ró til þess að fara að sofna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×