Íslenski boltinn

Jóhann Birnir bað Guðjón Árna afsökunar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Birnir í leiknum í gær.
Jóhann Birnir í leiknum í gær. Mynd/Vilhelm
Jóhann Birnir Guðmundsson sendi frá sér afsökunarbeiðni seint í gærkvöldi þar sem hann bað Guðjón Árna Antoníusson afsökunar á ummælum sínum.

Jóhann Birnir, sem leikur með Keflavík, fékk að líta rauða spjaldið í viðureign liðsins gegn FH í gær eftir viðskipti sín við FH-inginn Guðjón Árna, fyrrum liðsfélaga sinn og æskufélaga úr Garði.

Jóhann Birnir var svo harðorður í garð hins í viðtölum við fjölmiðla í gær og er það tilefni afsökunarbeiðninnar.

„Mig langar að biðja félaga minn og fyrrum liðsfélaga, Guðjón Árna Antoníusson, afsökunar á því að hafa ýjað að því að hann væri illa innrættur í viðtali við vefmiðla í gær. Orðin lét ég falla í miklu uppnámi, skömmu eftir leik leik FH og Keflavíkur, um atvik sem leiddi til þess að ég fékk að líta rauða spjaldið. Ég var og er vissulega sár og svekktur og afar ósáttur við framkomu hans í umræddu atviki en þykir miður ef orð mín skertu mannorð hans. Guðjón Árni er toppdrengur og það er aldrei að vita nema ég bjóði honum í afmælið mitt, haldi ég á annað borð uppá það.

Jóhann Birnir Guðmundsson"


Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - Keflavík 3-0

FH er komið með tíu stiga forystu á toppi Pepsí deildar karla eftir 3-0 sigur á Keflavík á Kaplakrikavelli. FH var mun betri aðilinn í leiknum og fékk fjölmörg færi í leiknum en Keflavík var einum færri í rúman hálftíma eftir að Jóhann Birnir fékk sitt seinna gula spjald í stöðunni 0-0.

Jóhann Birnir: Ég býð Guðjóni ekki í afmælið mitt

"Þú verður að spyrja Guðjón Árna að því. Þá getur þú séð hvort hann sé jafn óheiðarlegur í svörum og í atburðum úti á vellinum. Ég vil ekkert segja um þetta mál. Þið getið skoðað þetta og séð úr hverju Guðjón Árni er gerður," sagði reiður Jóhann Birnir Guðmundsson, allt annað en sáttur við rauða spjaldið sem hann fékk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×