Sport

Federer úr leik | Roddick hættur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roger Federer, Wimbledon-meistarinn í tennis, féll óvænt úr leik í fjórðungsúrslitum Opna bandaríska meistaramótsins í nótt þegar hann tapaði fyrir Tékkanum Tomas Berdych.

Þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem Federer tapar í fjórðungsúrslitum í New York en Berdych hafði betur með þremur settu gegn einu, 7-6, 6-4, 3-6 og 6-3. Berdych mætir nú Andy Murray í undanúrslitum.

Andy Roddyck batt í nótt enda á feril sinn en þá tapaði hann fyrir Juan Martin del Potro, 6-7, 7-6, 6-2 og 6-4. Roddick vann sinn eina stórmótssigur á Opna bandaríska árið 2003 en hann hefur verið meðal þekktustu tenniskappa heims síðasta áratuginn eða svo.

Roddick tilkynnti í síðustu viku að hann ætlaði að hætta eftir mótið og felldi hann mörg tár þegar hann tapaði viðureign sinni í nótt.

Tveir leikir eru eftir í fjórðungsúrslitum karla. Janko Tipsarevic mætir David Ferrer annars vegar og Del Potro leikur gegn Novak Djokovic en hann er í öðru sæti heimslistans, á eftir Federer.

Þá liggur ljóst fyrir hverjar mætast í undanúrslitum einliðaleiks kvenna. Efsta kona heimslistans, Victoria Azarenka frá Hvíta-Rússlandi, mætir Maríu Sharapovu frá Rússlandi.

Þá hafði Serena Williams betur gegn Önu Ivanovic í nótt, 6-1 og 6-3, og mætir hún Söru Errani frá Ítalíu í sinni undanúrslitaviðureign.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×