Íslenski boltinn

Óskar Örn á leið til Sandnes Ulf

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Daníel
Óskar Örn Hauksson, leikmaður KR, gengur að öllum líkindum til liðs við norska liðið Sandnes Ulf í dag. Um lánsamning út leiktíðina er að ræða. Þetta staðfesti Ólafur Garðarsson, umboðsmaður kappans, í samtali við Vísi í morgunsárið.

„Það eru allar líkur á því að hann verði leigður þangað með kauprétti," sagði Ólafur Garðarsson.

Óskar Örn flaug út í morgun til Noregs þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun hjá Úlfunum.

„Það er búið að semja um kaup og kjör þannig að þetta er 95 prósent öruggt. Það eru allar líkur á að þetta gangi," sagði Ólafur.

Hjá norska liðinu hittir Óskar Örn fyrir Keflvíkinginn Arnór Ingva Traustason og Steinþór Frey Þorsteinsson.

„Það hafa samt mörg lið sýnt Óskari Erni áhuga. Það náðist samkomulag við norska liðið seint í gærkvöldi," sagði Ólafur.

Óskar Örn hefur verið einn af bestu leikmönnum Íslandsmótsins í sumar líkt og síðasta sumar. Þá varð hann fyrir erfiðum meiðslum sem héldu honum frá keppni síðustu leiki sumarsins.

Óskar Örn, sem er nýorðinn 28 ára, þekkir aðeins til í norska boltanum. Hann var í láni hjá Sogndal undir lok tímabilsins árið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×