Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - Stjarnan 1-2

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Akranesvelli skrifar
Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Flottur fyrri hálfleikur dugði Stjörnumönnum til að vinna góðan 2-1 útisigur á Akranesi í kvöld. Kennie Chopart og Atli Jóhannsson skoruðu mörk gestanna en Garðar Gunnlaugsson fyrir ÍA.

Meira jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik en öflug vörn Stjörnunnar sá til þess að Skagamenn áttu erfitt með að koma skoti að marki.

Að lokum fögnuðu Stjörnumenn góðum sigri og virtust þeir hafa jafnað sig eftir vonbrigði helgarinnar er þeir máttu þola tap fyrir KR í úrslitum bikarkeppninnar.

Stjarnan er í fjórða sæti deildarinnar með 25 stig en fram undan er hörð samkeppni um þriðja sæti deildarinnar sem veitir þátttökurétt í Evrópukeppninni. ÍBV er nú í þriðja sæti með 26 stig auk þess að eiga leik til góða. Það er svo stutt í næstu lið á eftir en ÍA er í sjötta sætinu með 24 stig.

Fyrri hálfleikur var nánast fullkominn hjá Stjörnumönnum. Þeir skoruðu tvö góð mörk, sköpuðu sér þar að auki nokkur góð færi og varnarleikurinn var mjög þéttur. Danirnir tveir og Laxdal-bræðurnir voru illviðráðanlegir fyrir sóknarmenn Skagans sem náðu ekki skoti að marki.

Það er að segja ekki fyrr en á annarri mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiksins. ÍA fékk þá aukaspyrnu nálægt miðju og átti Jóhannes Karl háa sendingu inn að teig. Ármann Smári skallaði boltann fyrir Garðar sem skoraði af stuttu færi.

Svekkjandi niðurstaða fyrir Garðbæinga sem höfðu spilað svo vel fram að því. Fyrsta markið þeirra skoraði bakvörðurinn Kennie Chopart eftir frábæran einleik upp vinstri kantinn og fínt skot sem hvorki vörn né markvörður ÍA réði við.

Atli Jóhannsson skoraði svo síðara markið með skoti úr vítateig eftir góðan undirbúning Halldórs Orra. Atli hafði skömmu áður fengið frábært færi en skaut yfir af stuttu færi.

Stjörnumenn voru vel skipulagðir, börðust um hvern bolta og voru grimmir. Það var auðmerkjanlegur munur á þessum tveimur liðum og var það sérstaklega áberandi hversu vanmáttugir Skagamenn virtust gegn sterkri varnarlínu gestanna.

Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af nokkrum krafti og Jóhannes Karl átti þrumuskot í slá af 35 metra færi strax á upphafsmínútunum. En þar með voru marktilraunir ÍA í leiknum upptalin, þó svo að heimamenn náðu sér mun betur á strik í síðari hálfleik en í þeim fyrri.

Varnarmenn Stjörnunnar sáu til þess að ÍA náði ekki að skapa sér almennileg færi eftir þetta og voru Garðbæingar nær því að skora en hitt. Besta færið fékk Ellert Hreinsson um miðbik hálfleiksins þegar hann komst einn gegn Páli Gísla í markinu. Ellert fór þó illa að ráði sínu og Páll Gísli varði auðveldlega frá honum.

Sigurinn var mikilvægur fyrir Stjörnumenn sem hafa beðið í um einn og hálfan mánuð eftir sigri í deildarleik. Oft hefur verið talað um sóknarkraft Stjörnumanna en í kvöld sýndu þeir að þeir eru líka gott varnarlið þegar þeir ná sér á strik.

Skagamenn hafa verið á ágætri siglingu að undanförnu en mættu ofjörlum sínum í kvöld. Þeir náðu sér þokkalega á strik í síðari hálfleik en án þess þó að geta skapað sér nógu hættulegt færi til að jafna metin.

Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Daníel: Tímabær sigur

Daníel Laxdal átti frábæran dag í vörn Stjörnunnar og var að öðrum ólöstuðum maður leiksins.

„Loksins náðum við að spila vel. Við þurftum að rífa okkur upp enda hefur okkur ekki gengið vel í deildinni að undanförnu. Kannski var bikarleikurinn að trufla okkur," sagði Daníel en Stjarnan tapaði fyrir KR í bikarúrslitunum um helgina.

„En nú er það búið og við ætlum okkur að ná Evrópusæti í deildinni."

Hann viðurkennir að Stjörnumönnum sé mjög létt eftir þennan sigur. „Jú, ekki síst vegna þess að þetta var sigur á erfiðum útivelli. Ég verð líka að hrósa stuðningsmönnum okkar - þær hættu aldrei að syngja í leiknum."

Stjörnuvörnin spilaði vel og segir Daníel að það hafi verið svekkjandi að hafa ekki haldið hreinu.

„Þeir voru fljótir að taka aukaspyrnuna og við vorum ekki komnir í stöðu. Það var bara vel gert hjá þeim. En ég er samt afar sáttur við stigin og vonandi er þetta allt á uppleið hjá okkur."

Mynd/Ernir
Bjarni: Áttum að skora meira í fyrri hálfleik

Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með leik sinna manna og stigin þrjú sem Stjarnan fékk í kvöld.

„Okkur er mjög létt. Það voru átök að undirbúa þennan leik enda spennufall hjá leikmönnum eftir sárt tap í bikarnum um helgina. Það var því frábært að koma hingað og vinna," sagði Bjarni.

„Við lögðum upp með að halda boltanum og láta hann ganga á milli manna. Það gekk mjög vel. Okkur tókst að skapa okkur færi og áttum við í raun að skora meira í fyrri hálfleik en við gerðum. Samt sem áður tókst okkur að sigla þessu nokkuð örugglega í höfn í seinni hálfleik."

Bjarni var ekki síst ánægður með varnarleik sinna manna í dag. „Ég hef útskýrt áður að varnarleikur Stjörnunnar er hugarfarslegs eðlis," sagði hann og brosti. „Það þarf ekki að fjölga í vörninni heldur þurfa leikmenn einfaldlega að spila vörn þegar þeir eiga að gera það. Það gekk vel í dag."

„Við erum smám saman að læra það að við þurfum ekki að pressa andstæðinginn við endalínu þegar við erum yfir. Það hefur verið okkar akkilesarhæll síðustu ár."

Mynd/Pjetur
Þórður: Lélegir í fyrri hálfleik

Þórður Þórðarson, þjálfari ÍA, var afar ósáttur við frammistöðu sinna manna í fyrri hálfleik í kvöld.

Stjörnumenn komust í 2-0 forystu í fyrri hálfleik en Skagamenn náðu reyndar að jafna metin skömmu áður en fyrri hálfleikur var flautaður af.

„Við mættum ekki til leiks í fyrri hálfleik. Hann var bara lélegur hjá okkur," sagði Þórður. „Við vorum þó betri í seinni hálfleik og sterkari aðilinn þó svo að þeir hefðu fengið hættulegri færi."

„Við fengum vissulega ekki margar marktilraunir en mér fannst við samt spila ágætlega í seinni hálfleik. Við vorum alltaf inni í leiknum."

Skagamenn hafa verið á ágætu skriði en Þórður segir tapið í kvöld ekki bakslag. „Deildin er jöfn og það eru allir að vinna alla - nema kannski neðstu liðin. Nú er það bara næsti leikur og ekkert annað sem gildir fyrir okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×