Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - Grindavík 2-1

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Akranesi skrifar
mynd/guðmundur bjarki
ÍA lyfti sér í fjórða sæti Pepsí deildar karla í fótbolta með góðum 2-1 sigri á baráttuglöðu liði Grindavíkur í kvöld á Akranesi. Staðan í hálfleik var 1-0 ÍA í vil en ÍA komst í 2-0 áður en Grindavík minnkaði muninn skömmu fyrir leikslok.

ÍA var mikið betri aðilinn í fyrri hálfleik. Dean Martin kom liðinu yfir á 22. mínútu og þrátt fyrir margar góðar sóknir náði liðið ekki að styrkja stöðu sína enn frekar fyrir hálfleik.

Sóknarleikur Grindavíkur snérist um langa bolta fram á Tomi Ameobi sem mátti sín lítils gegn Ármanni Smára Björnssyni og félögum í vörn ÍA.

Allt annað var uppi á tengingum í seinni hálfleik og má hreinlega segja að leikurinn hafi snúist. Grindavík náði að halda boltanum innan liðsins og færa lið sitt ofarlega á völlinn þar sem bakverðirnir tóku markvissan þátt í sóknarleiknum á sama tíma og ÍA sótti á fáum mönnum þegar færi gáfust.

Sóknir Grindavíkur þyngdust jafnt og þétt og eftir þeirra bestu sókn í leiknum náði ÍA skyndisókn sem lauk með því að Garðar Gunnlaugsson skallaði boltann í netið. Þvert gegn gangi leiksins var staðan orðin 2-0.

Grindavík gafst ekki upp og héldu áfram að sækja en lánleysi einkenndi leik liðsins þegar inn í teig var komið á sama tíma og Skagamenn hentu sér fyrir alla bolta í teignum og gerðu mjög vel í því að hindra Grindavík í að ná skoti á markið.

Grindavík náði að minnka muninn með glæsilegu marki Scott Ramsay þegar tvær mínútur voru til leiksloka og þrátt fyrir að henda öllu fram náði liðið ekki að skapa sér færi til að jafna metin og enn versnar staða Grindavíkur á botni deildarinnar.

ÍA er komið í fjórða sæti deildarinnar og á áfram í harðri baráttu um Evrópusæti en liðið mætir ÍBV í næsta leik en liðin eru jöfn að stigum í þriðja og fjórða sæti deildarinnar.

Þórður: Ánægður með stigin þrjú„Mjög góð þrjú stig gegn erfiðu liði Grindavíkur í dag. Seinni hálfleikur var mjög erfiður. Við spiluðum fínt í fyrri hálfleik en vorum í miklu basli með þá í seinni hálfleik sem er ekkert óeðlilegt, þetta er lið í fallbaráttu," sagði Þórður Þórðarson þjálfari ÍA í leikslok.

„Lið mitt slitnaði of mikið í sundur í seinni hálfleik en við náðum að setja mark sem ég er ánægður með. Eftir að leið á leikinn lentum við í basli og þess vegna fórum við með færri fram en það tókst að ná í þrjú stig sem ég er mjög ánægður með.

„Við horfum á Evrópusæti og hver leikur er úrslitaleikur í því fyrir okkur og næst eigum við erfiðan leik í Eyjum og þrjú stig þar myndu hjálpa mikið," sagði Þórður að lokum.

Guðjón: Það þarf kraftaverk„Þetta var ekki fallegasti fótboltaleikurinn en það voru ágætir kaflar í honum. Það var þungt að þurfa að tapa þessu. Við erum í erfiðri stöðu," sagði Guðjón Þórðarson þjálfari Grindavíkur eftir leikinn.

„Rétt áður en þeir komast í 2-0 erum við nálægt því að jafna leikinn en það gekk ekki. Annað markið þeirra var klaufa mark og það gerir það að verkum að við fáum ekkert út úr þessum leik.

„Það vantaði herslumuninn hjá okkur. Við fáum þrjú færi í fyrri hálfleik en ekkert þeirra testa Palla [Pál Gísla Jónsson] nógu vel. Það var þungt að sjá ekkert af færunum í seinni hálfleik enda í netinu. Markið hjá Scotty [Scott Ramsay] var gott en það var óeðlilegt að sjá okkur fá aukaspyrnu eftir brot á Tomi. Það nýttist en við vorum steinhissa, vissum næstum því ekkert hvað við áttum að gera.

„Það vantaði örlítið betri útfærslu í pressunni sem við erum að reyna að búa til, því fer sem fer. Við verðum að vera yfirvegaðari í stöðunum sem við fáum. Við sjáum að fyrsta markið þeirra fer í gegnum varnarmanninn og undir markmanninn, þannig þarf það að gerast. Það hefur ekki verið að gerast hjá okkur í langan tíma.

„Þú býrð til þína eigin heppni og við höfum ekki verið nógu öflugir í að búa hana til. Þetta verður erfiðara og erfiðara og ef við hefðum fengið úrslit hérna hefðum við náð að halda í við Selfoss og reynt að nálgast Framarana. Það er alveg ljóst að það þarf kraftaverk úr því sem komið er. Það er engin uppgjöf hjá mér og ég held að það sé ekki nein uppgjöf hjá strákunum. Þeir reyndu til þrautar en það vantaði herslumuninn," sagði Guðjón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×