Íslenski boltinn

KR ekki tapað heima gegn Fram í tólf ár

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Daði Guðmundsson var í sigurliði Fram á KR-velli í júní árið 2000.
Daði Guðmundsson var í sigurliði Fram á KR-velli í júní árið 2000. Mynd/Ernir
17. umferð Pepsi-deildar karla lýkur í kvöld með tveimur leikjum. Keflavík tekur á móti Val suður með sjó og í Vesturbænum mætast KR og Fram.

KR-ingar stimpluðu sig inn í titilbaráttuna á nýjan leik með 3-1 sigri á FH í síðustu umferð. Með sigrinum minnkuðu Íslandsmeistararnir bilið í FH í tvö stig en bilið jókst aftur í fimm stig með sigri FH í Árbænum í gærkvöldi.

KR má illa við öðru en þremur stigum gegn Fram í kvöld því auk forskots Hafnfirðinga á FH leik til góða. Ef litið er á leiki liðanna á KR-velli undanfarin rúman áratug er fátt sem bendir til annars en sigurs Vesturbæjarliðsins.

KR hefur unnið síðustu tíu leiki liðanna í deildinni. Síðasti sigur Fram í deildarleik í Vesturbænum kom í júní árið 2000. Steinar Guðgeirsson og Sigurvin Ólafsson skoruðu mörk Framara í 2-1 sigri en Einar Þór Daníelsson skoraði mark KR-inga.

Með sigri minnkar KR muninn á toppi deildarinnar í tvö stig á nýjan leik. FH mætir svo ÍBV í Kaplakrika í lykilleik í toppbaráttunni á fimmtudag og getur stigið risaskref í átt að sínum sjötta Íslandsmeistaratitli með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×