Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Fram 1-1

Kolbeinn Tumi Daðason á KR-velli skrifar
Mynd/Valli
KR og Fram skildu jöfn í fáránlegum fótboltaleik í 17. umferð Pepsi-deildar karla í Vesturbænum í kvöld. Framarar réðu leiknum lengst af en slæm nýting dauðafæri kostaði liðið tvö stig.

Raunar fengu KR-ingar dauðafæri undir lokin og hefðu á eðlilegum degi átt að stela stigunum þremur sem hefði þó verið æði ósanngjarnt. Ögmundur Kristinsson fékk örugglega gott klapp á bakið á liðsfélögum sínum eftir leikinn því hann bjargaði þrívegis frá KR-ingum úr opnum færum.

Kristinn Ingi Halldórsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks með fallegu skoti rétt utan teigs í fyrri hálfleik og Framarar leiddu verðskuldað í hálfleik. KR-ingar virkuðu fjarverandi, andlega sem líkamlega, enda vantaði allan huga og baráttu auk þess sem grunnatriði knattspyrnunnar virtust vefjast fyrir þeim.

Framarar voru áfram betra liðið í síðari hálfleiknum en nýttu ekki dauðafæri sem sköpuðust þegar KR-ingar freystuðu þess að jafna metin og færðu sig ofar á völlinn.

Heimamenn jöfnuðu úr vítaspyrnu fimm mínútum fyrir leikslok og í hönd fóru ótrúlegar lokamínútur. Bæði lið fengu dauðafæri sem nýttust ekki og jafntefli staðreynd.

Bæði lið gráta stigin töpuðu. Vinni FH-ingar sigur á ÍBV í leik liðanna á fimmtudaginn geta KR-ingar einbeitt sér að því að halda 2. sæti deildarinnar. Framarar hefðu hins vegar getað stungið Selfyssinga af í botnbaráttunni en nýttu ekki fjölmörg færi sem kostaði þá dýrt.

Baldur Sigurðsson: Mótið er búið fyrir okkur„Það er þungt að koma í viðtal núna. Mótið er búið fyrir okkur og ekkert annað að gera en að spila fyrir stoltið," sagði Baldur Sigurðsson sem átti dapran leik á miðjunni hjá KR líkt og flestir samherjar hans.

„Framarar eru líklega einnig ósáttir með töpuð stig, stigið gerir lítið fyrir þá. Við erum þeim mun meira ósáttir. Ég er eiginlega orðlaus," sagði Baldur og minnti réttilega á að KR-ingar hefðu getað stolið öllum stigunum í lokin.

„Það má kalla það rán en þau þekkjast alveg í fótbolta. Við áttum það ekki skilið en hefði verið ljúft," sagði Baldur sem átti fáar skýringar á slæmum leik KR.

„Leikjaálag útskýrir þetta ekki. Flest lið spila jafnþétt ef frá er talinn kannski bikarúrslitaleikurinn okkar. Mig minnir að undanfarin ár hafi okkar bestu leikir komið þegar við vorum að spila þétt. Vandamálið er eitthvað allt annað," sagði Baldur.

Þorvaldur Örlygsson: Þetta var eins og skólavallabolti„Mörkin breyta miklu. Það þarf að skora og við fengum færi til að klára leikinn nokkuð auðveldlega. Þegar líður að leikslokum og staðan er 1-0 getur ýmislegt gerst," sagði Þorvaldur Örlygsson þjálfari Fram.

Framarar hafa ekki unnið í deildinni í Vesturbæ frá árinu 2000.

„Við höfum átt góða leiki hérna þar sem hlutirnir hafa ekki fallið með okkur. Við fengum á okkur klaufalegt víti í dag en nýttum að sama skapi ekki færi sem við eigum að klára. Svipað var uppi á teningnum á síðasta ári en því miður. Það eru mörkin sem telja," sagði Þorvaldur sem minntist á að allhressilega hefði farið að blása síðustu mínúturnar á mark Framara.

„Það fór að blása allhressilega síðustu tíu mínúturnar og mátti halda að við værum komin til Vestmannaeyja. Það breytti miklu. Á heildina litið hefðum við átt að skora fleiri mörk," sagði Þorvaldur sem var ósáttur að Atla Sigurjónssyni hefði ekki verið vísað af velli skömmu áður en Framarar jöfnuðu.

„Þetta byrjar með aukaspyrnu inni á miðjum vellinum þar sem leikmaður KR, sem var á gulu spjaldi, brýtur mjög illa á Hlyni. Við misstum hann af velli og spurning hvort þetta hefði ekki átt að vera seinna gula spjaldið," sagði Þorvaldur.

Rúnar: Getum þakkað fyrir stigið„Við getum þakkað fyrir þetta stig," sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR sem átti fáar skýringar á andleysi sinna manna í kvöld. Hann hrósaði þó andstæðingnum.

„Framarar léku líklega einn sinn besta leik í sumar og sú pressa sem við ætluðum að setja á þá gekk ekki upp. Þeir náðu að spila boltanum vel á milli og halda honum vel," sagði Rúnar.

„Við höfum átt tvo slæma leiki á heimavelli gegn Val og Fram og það hefur kostað okkur stig. Deildin er hins vegar bara sterk, fullt af góðum liðum og Fram að berjast fyrir lífi sínu. Næst förum við á Selfoss og þar á eftir mætum við Grindavík. Það skiptir engu máli hvar ber niður. Þú þarft að eiga góðan leik og í dag gekk það ekki upp," sagði Rúnar.

Kristinn Ingi: Ætluðum að koma hingað og vinna„Við vorum með yfirburði í áttatíu mínútur og fengum fimm til sex dauðafæri til að klára leikinn en gerðum það ekki," sagði Kristinn Ingi Halldórsson sem átti flottan leik með Fram í kvöld.

„Við verðum samt líka að hrósa Ömma fyrir að verja nokkur mjög góð færi þeirra í lokin," sagði Kristinn.

„Við ætluðum að koma hingað að vinna og mér fannst við sýna það. Við höfum unnið þá nokkrum sinnum í ár og ætluðum að gera það aftur. Mér fannst við sýna það ," sagði Kristinn Ingi.

Kristinn Ingi hefur tekið ótrúlegum framförum á einu til tveimur árum og var ásamt Ögmundi besti leikmaður vallarins í kvöld. En hver er skýringin á framförunum ótrúlegu?

„Maður æfir vel og það skilar sér. Svo bætist við reynsla og öryggi í aðgerðum á öðru tímabili í efstu deild. Ég kem oftast með það hugarfar að hlaupa af mér rassgatið í leikjum. Þá kemur hitt með," sagði Kristinn Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×