Innlent

Skattleysi Dorritar vegna tvísköttunarsamnings við Bretland

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Dorrit Moussaieff forsetafrú ber að greiða skatta á Íslandi þar sem hún hefur lögheimili hér á landi í samræmi við meginreglu skattaréttar. Hún telur fram hér en vegna tvísköttunarsamnings við Bretland greiðir hún ekki skatta á Íslandi.

Fréttir um skattleysi Dorritar hafa vakið athygli en hún greiðir hvorki auðlegðarskatt né tekjuskatt að neinu ráði hér á landi.

Starfsmenn forsetaembættisins hafa haldið því fram í skriflegum og munnlegum svörum til fjölmiðla að forsetafrúin hafi engar tekjur hér á landi greiði því ekki skatta hér.

Þetta er á skjön við lög um tekjuskatt og meginreglu skattaréttar, svokallaða heimilisfestisreglu, en forsetafrúin er með lögheimili hér samkvæmt þjóðskrá.

Vala Valtýsdóttir er lögfræðingur og sérfræðingur í skattarétti. Tekið skal fram að Vala þekkir ekki mál forsetafrúarinnar en við fengum hana til að ræða þessi mál almennt. Í myndskeiði með frétt má sjá viðtal við hana, en hún segir að meginreglan sé sú að einstaklingar með lögheimili hér á landi greiði skatta hér. Þannig skipti ekki máli hvaðan tekjur séu sprottnar, greiða þurfi skatta af þeim hér. Tvísköttunarsamningar geti hins vegar haft áhrif. Þannig sé tekjuskattur sem greiddur er í Bretlandi frádráttarbær.

Þau svör fengust hjá skrifstofu forseta Íslands í dag að tekjur Dorritar Moussaieff væru taldar fram erlendis og greiddir af þeim skattar í samræmi við reglur um tvísköttun en að þessar tekjur væru jafnframt tilgreindar á íslenskum skattframtölum hennar. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×