Innlent

Hungraðir þjóðhátíðargestir flykkjast í Krónuna

BBI skrifar
Vestmannaeyjar úr lofti.
Vestmannaeyjar úr lofti. Mynd/Pjetur
„Þetta er bara geðveiki, en mjög gaman," segir Jane Yvonne Quirk, verslunarstjóri Krónunnar í Vestmannaeyjum, um starfsemina í versluninni þessa dagana. Krónan er stærsta matvöruverslun eyjanna og nú flykkjast hungraðir þjóðhátíðargestir í búðina.

„Krakkarnir eru að standa sig frábærlega. En við erum bara með þrjá kassa og þetta tekur rosalega á," segir Jane. Hún segir að búðin hafi hreinlega verið full frá því hún opnaði í gær og í allan dag. Jane segir að biðraðir eftir afgreiðslu teygi sig nánast um alla búð og fólk standi langtímum saman og bíði eftir afgreiðslu. „En samt eru allir í svo góðu skapi," segir hún.

Viðskiptin í versluninni er margföld á við það sem venjulega gerist og Jane telur að þar séu allt að hundrað manns í senn. „Það er algjört brjálæði að gera. Þetta er bara klikkun," segir hún og getur tæplega lýst áganginum. Hún segir þó að heilt á litið hafi afgreiðslan gengið vel enda séu 15 starfsmenn á vakt.

Fólk er helst á höttunum eftir snakki og kexi, kjöti og hamborgurum, áleggi og brauði og gosi. Jane segir að verslunin hafi tryggt að nægar birgðir væru til staðar fyrir helgina. „Ójá! Við ætluðum sko ekki að klikka á þessu," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×