Innlent

Bætir líf fatlaðra að velja eigin aðstoðarfólk

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Fatlaðir sem fá að velja eigin aðstoðarmenn og stýra þeirra vinnu eru líklegri til að vera sýnilegri í samfélaginu, stofna fjölskyldur og fá betri störf segir Freyja Haraldsdóttir, ein af þeim fáu sem hefur fengið að nýta sér þetta fyrirkomulag hér á landi.

Lögfesta á rétt fatlaðra að svokallaðri notendastýrðri persónulegri aðstoð árið 2014 og því hefur tveggja ára tilraunaverkefni verið komið á koppinn þar sem fatlaðir fá greiðslur sem þeir nýta í þjónustu að eigin vali. Freyja Haraldsdóttir hefur nýtt sér þetta fyrirkomulag í nokkur ár og segir það hafa bylt lífi sínu.

„Síðan ég fékk þessa aðstoð hef ég lokið háskólanámi, flutt að heiman, ferðast mikið um heiminn sjálf og einhvernveginn liðið betur með sjálfa mig," segir Freyja.

Sveitarfélögum á landinu býðst að taka þátt í fyrrnefndu tilraunaverkefni og auglýsti Reykjavíkurborg til að mynda eftir þátttakendum í dag. Freyja vonast til að sem flest sveitarfélög taki þátt en í nágrannalöndum hefur fyrirkomulagið tíðkast í marga áratugi.

„Þar er þetta komið mikið lengra, og það þýðir það að fatlað fólk er miklu sýnilegra úti í samfélaginu. Það er miklu frekar í háskólanámi, í betri störfum, stofnar fjölskyldur og gerir það sem ófatlað fólk er að gera," segir Freyja.

Dæmi um þjónustuna má sjá í myndinni Intouchables sem tugir þúsunda Íslendinga hafa nú séð. Freyja segir hana sýna fram á mikilvægi fyrirkomulagsins og að aðstoðarfólkið þurfi ekki endilega að hafa þrjátíu ára starfsreynslu að baki.

„Í mínum hópi af aðstoðarkonum hafa verið snyrtifræðingar, einkaþjálfarar, þyrluflugmenn og lögreglukona. Það er bara gaman, það getur verið alls konar fólk sem starfar, það er bara að fólk smelli saman," segir Freyja.


Tengdar fréttir

Fá að velja sér aðstoðarmenn sjálf

Fötluðu fólki í Reykjavík og á Seltjarnarnesi gefst nú kostur á að taka þátt í tveggja ára tilraunarverkefni þar sem það fær greiðslur í stað þjónustu og getur þar með valið aðstoðarfólk sitt sjálft og ákveðið hvernig það nýtist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×