Innlent

Bræðslan hefur gengið vonum framar

BBI skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.
Útihátíðin Bræðslan stendur nú yfir í Borgarfirði Eystri. Hún hefur farið friðsamlega fram og allt gengur vonum framar að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum.

„Þetta gengur bara eins og í sögu. Alveg ótrúlegt. Ekkert vesen, engin slagsmál og ekki neitt," segir lögreglumaður á svæðinu. Hátíðin hófst á miðvikudaginn og hefur verið að byggjast upp. Hápunkturinn verður í kvöld. Hingað til hafa hvorki komið upp fíkniefnamál né brotist út slagsmál að sögn lögreglu. Alvarlegasta atvikið hingað til var þegar tónleikagestur missti undan sér fæturna, small í jörðina og braut á sér nefið.

„Það verður ábyggilega meira í kvöld bara. Það hlýtur að vera," segir lögreglumaður á vakt og þorir ekki að trúa að hátíðinni ljúki jafnfarsællega og hún hefur farið fram hingað til.

Nú hafa um þúsund manns borgað sig inn á tjaldsvæðið. Lögregla gerir ráð fyrir því að fleiri séu á svæðinu og gisti þá í heimahúsum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×