Erlent

Mugly er ljótastur

Hvuttinn Mugly hefur verið valinn ljótasti hundur veraldar. Hann sigraði 28 forljóta hunda í Norður-Karólínu í gær og fékk að launum þúsund dollara sem og ársbirgðir af hundasnakki.

Ljótleiki Mugly, sem er kínverskur faxhundur, þótti afgerandi. Stutt trýnið, stingandi augnaráð og hvítir bartar gerðu útslagið hjá dómurum sem og áhorfendum.

Mugly er átta ára gamall. Honum var bjargað úr hundabyrgi í Bretlandi fyrir nokkrum árum og hefur síðan þá ferðast um heiminn með eiganda sínum, Bev Nicholsons, og flaggað trýni sínu.

Þetta er nefnilega ekki í fyrsta sinn sem óheillandi ásjóna Mugly er viðurkennd. Árið 2005 var hann einmitt valinn ljótasti hundur Bretlands.

Hægt er að sjá myndband frá keppninni í Norður-Karólínu hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×