Fótbolti

Könnun L'Equipe: Frakkar vilja sparka Nasri út úr landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samir Nasri.
Samir Nasri. Mynd/AFP
56 prósent lesenda hins virta franska íþróttablaðs L'Equipe vilja sparka Samir Nasri út úr franska landsliðinu eftir hegðun kappans á EM í fótbolta. Samir Nasri lenti upp á kant við bæði þjálfara og fjölmiðlamenn á mótinu og ímynd hans er í molum.

L'Equipe stóð fyrir könnuninni á heimasíðu sinni eftir að Samir Nasri hraunaði yfir blaðmanna eftir tap Frakka í átta liða úrslitunum. Nasri var settur á bekkinn fyrir leikinn eftir að hafa öskrað á liðsfélaga sinn Alou Diarra á æfingu franska liðsins.

Nasri gerði gott betur þegar hann fór að rífast við aðstoðarþjálfarann Alain Boghossian fyrir leikinn á móti Spánverjum. Nasri heimtaði þar skýringar á því af hverju hann var ekki í byrjunarliðinu.

Þá má síðan ekki gleyma að hann "sussaði" á blaðamenn eftir að hann skoraði markið sitt á móti Englendingum.

Laurent Blanc, þjálfari Frakka, hefur lagt ofurkapp á að laga agamál innan franska landsliðsins og það leit út fyrir það að hann væri búinn að því þegar allt datt í sama farið á EM.

Það efast enginn um hæfileika Manchester City leikmannsins en nú þarf Laurent Blanc bara að ákveða hvort að hæifleikarnir séu nógu miklir til þess að réttlæta alla stjörnustælana í Samir Nasri. Lesendur L'Equipe eru ekki á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×