Fótbolti

Danir úr leik | Þjóðverjar með fullt hús stiga

Nordicphotos/Getty
Danir eru úr leik á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu eftir 2-1 tap gegn Þjóðverjum í lokaumferð B-riðilsins. Þjóðverjar unnu alla þrjá leiki sína í riðlinum og mæta þeir liði Grikklands í átta liða úrslitum. Danir sátu eftir með sárt ennið í þriðja sæti riðilsins en Portúgal endaði í öðru sæti eftir 2-1 sigur gegn Hollendingum – sem töpuðu öllum þremur leikjum sínum í riðlinum.

Lukas Podolski kom Þjóðverjum yfir á 19. mínútu með góðu skoti og það vakti athygli að hann notaði hægri fótinn að þessu sinni. Mario Gomez lagði markið upp en hann hafði fyrir leikinn skorað öll þrjú mörk Þjóðverja í keppninni fram að þessu. Gomez var samt sem áður ógnandi og er alltaf líklegur til þess að skora.

Danir gáfust ekki upp og Michael Krohn Dehli jafnaði metin á 24. mín. Hann skallaði boltann af stuttu færi eftir að Nicklas Bendtner hafði skallað boltann fyrir markið eftir hornspyrn. Aðeins sigur dugði fyrir Dani þegar ljóst var að Portúgal var komið yfir gegn Hollendingum. Danir reyndu hvað þeir gátu en Þjóðverjar voru sterkari og skoraði Lars Bender sigurmarkið á 80. mínútu. Flott sókn Þjóðverja endaði með því að hægri bakvörðurinn var fremsti maður liðsins og skoraði af stuttu færi. Mesut Özil lagði upp markið.

Boltavakt Vísis var með beina lýsingu frá viðureign Dana og Þjóðverja B-riðli á EM 2012.

Hér fyrir neðan eru allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins sem og leikmannahópa liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×