Innlent

Hundruð milljóna kostnaður vegna breytinga á stjórnarráðinu

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Talið er að kostnaður vegna húsnæðis ráðuneyta, vegna breytinga á stjórnarráðinu, geta orðið á bilinu 125 til 225 milljónir króna.

Fram kemur í minnisblaði frá Forsætisráðuneytinu að kostnaður við breytingar á ráðuneytum sem samþykktar voru á Alþingi í gær varði að mestu húsnæði ráðuneytanna og er talið að stærsti einstaki kostnaðarliðurinn sé vegna viðbyggingar við Skúlagötu 4 þar sem Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er nú til húsa. Talið er að kostnaður vegna alls húsnæðis vegna breytinganna geti hlaupið á 125 til 225 milljónum króna.

Í gær var samþykkt á alþingi þingsályktunartillaga sem felur það í sér ráðuneytum verður fækkað úr tíu í átta. Sérstakt atvinnuvegaráðuneyti verður stofnað og fjármálaráðuneytið og efnahags- og viðskiptaráðuneytið verða sameinuð í eitt og sama ráðuneytið. Tillagan var samþykkt með 28 atkvæðum gegn 21 og var meðal annars Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á meðal þeirra sem kusu gegn tillögunni.

Kostnaður vegna stofnunnar nýrra ráðuneyta frá árinu 2009 er nú þegar orðinn í kringum 270 milljónir króna. Þegar innanríkisráðuneytið og velferðaráðuneytið voru stofnuð á síðasta ári var kostnaðurinn rúmar 243 milljónir og kostnaður við stofnun efnaefnahags- og viðskiptaráðuneytis árið 2009 nam rúmum 24 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×